Ábúðarlög

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 15:05:07 (5780)

2004-03-30 15:05:07# 130. lþ. 90.3 fundur 782. mál: #A ábúðarlög# (heildarlög) frv., AKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[15:05]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (andsvar):

Frú forseti. Fyrst varðandi 10. og 11. gr. Það sem hæstv. landbrh. fór yfir var nákvæmlega það sem ég var að benda á að ég teldi óásættanlegt. Í 10. og 11. gr. er ekki gert kleift að semja um að t.d. veiði og hlunnindi af æðarvarpi séu undanskilin í leigusamningi. Úr því að verið er að tala um undanþágur á annað borð finnst mér að það eigi að gera undanþágur í báðar áttir, þ.e. að leigutaka sé heimil meiri afnot af hlunnindum en 10. gr. gefur til kynna og jafnframt að eiganda sé heimilt að nýta sér þau hlunnindi sem honum hentar. Ég tel að æðarvarpið sé einmitt dæmi um það því það getur verið mjög mikilvægt fyrir verðmæti jarðarinnar til lengri tíma litið að eigandinn sjálfur fái að nytja varpið, þar sem það þarf sérkunnáttu og natni sem er alls ekkert gefið að leiguliði hafi.

Varðandi 32. gr. segir ekki að barnið sem talað er um í 2. tölul. sé sameiginlegt barn hjóna. Sú grein er mjög óskýr og þarfnast lagfæringar.