Ábúðarlög

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 15:07:04 (5781)

2004-03-30 15:07:04# 130. lþ. 90.3 fundur 782. mál: #A ábúðarlög# (heildarlög) frv., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[15:07]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Margt ágætt kom fram í ræðu hv. þm. Önnu Kristínar Gunnarsdóttur áðan. En mér fannst anda ansi köldu til þeirra sem hafa keypt jarðir á landsbyggðinni og stunda þar annað en landbúnað með ær og kýr. Ég held að flestir, alla vega þar sem ég þekki til, sinni jörðum sínum afskaplega vel og allur almannaréttur um umgengni á jörðum er fyrir hendi. Jarðareigandi má ekki hefta aðgang að jörð sinni. Það mega allir ganga um hana. Það er bannað að girða ár og læki þannig að aðgengi að ám á að vera frjálst. Þetta er í lögum sem hafa verið samþykkt á Alþingi. Það mega allir tjalda hvar sem þeir vilja, nema innan 300 metra radíusar frá húsi að mig minnir. Almannarétturinn er því mjög ríkur.

Miklar breytingar hafa orðið í landbúnaði og ef það á að vera ákvörðun sveitarstjórnar, í sveit þar sem hafa t.d. verið 30 mjólkurbændur áður en eru aðeins 8 eftir í dag, að það skuli bara vera áfram bændur sem stunda landbúnað með ær og kýr. Landbúnaður er svo víðtækur og starfsemin líka að það gengur ekki ef sveitarstjórn ætlar að fara að ráðskast með það hvernig menn nýta jarðir sínar.