Jarðalög

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 16:06:16 (5795)

2004-03-30 16:06:16# 130. lþ. 90.4 fundur 783. mál: #A jarðalög# (heildarlög) frv., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[16:06]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom margt fram í máli hv. þm. Hvað búnaðarþing varðar hefur málið verið sent til búnaðarþings og það er milliþinganefnd að ræða þessi mál. Að sjálfsögðu mun landbn. senda frumvörpin til umsagnar og við munum fá til okkar gesti og fara mjög vandlega yfir þessi mál.

En af því hv. þm. telur að verið sé að takmarka mjög rétt almennings að jörðum þá er það ekki þannig. Ég ætla aðeins að fara yfir þau lög sem gilda um meðferð og ráðstöfun jarða á Íslandi. Það eru jarðalög, ábúðarlög og ýmis atriði um meðferð og nýtingu jarða í öðrum lögum. Það eru lög um jarðasjóð, um landskiptalög og um landamerki. Lög um lax- og silungsveiði, vatnalög, girðingalög og lög um afréttarmálefni, fjallskil. Það eru orkulög, lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, skipulags- og byggingarlög, lög um náttúruvernd og lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Lög um lausn ítaka á jörðum, lög um bæjarnöfn, lög um eignarrétt og lög um afnotarétt fasteigna, lög um hefð, lög um landgræðslu, lög um skógrækt og lög um landshlutabundin skógræktarverkefni. Lög um mat á umhverfisáhrifum, lög um samningsveð, um skráningu og mat fasteigna, þinglýsingalög og lög um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og þjóðminjalög. Það eru því æðimörg lög sem snerta þá sem eiga jarðir.