Jarðalög

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 16:08:23 (5796)

2004-03-30 16:08:23# 130. lþ. 90.4 fundur 783. mál: #A jarðalög# (heildarlög) frv., JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[16:08]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Drífa Hjartardóttir hefur lesið upp nöfn á mörgum lagaheitum. En eins og hæstv. ráðherra gerði rækilega grein fyrir í máli sínu er fyrst og fremst verið að skerða afskipti og aðkomumöguleika sveitarfélaga að ráðstöfun á jörðum og landi í frv. og nefndi dæmi sem sýndu hvað þetta væri erfitt í meðförum nú. Sjálfsagt er það hárrétt í einstaka tilvikum, en engu að síður snúa lögin fyrst og fremst að því. Þá benti ég á að sveitarfélögin hafa treyst á aðkomu sína að landnotkun og meðferð lands í gegnum lögin. Ef hún er skert þarf að athuga hvort sveitarfélögin geta og vilja treysta aðkomu sína með öðrum hætti að ráðstöfun lands. Það getur verið með öðrum hætti en tilgreint hefur verið í jarðalögunum. Almenningur á fyrst og fremst aðgang að landi í byggð í gegnum sveitarfélögin, sem frv. fjallar fyrst og fremst um, og sveitarfélögin geta nýtt sér auðlindir þess til að styrkja búsetu og atvinnusköpun heima í héraði í gegnum aðkomu sína að lögunum.

Ég tel því að við eigum að fara mjög vandlega í gegnum þá umræðu að tryggja sveitarfélögunum áfram nokkuð örugga aðkomu að verndun, nýtingu og meðferð á landi í byggð eins og lögin kveða á um.