Afgreiðsla þingmannamála úr nefndum o.fl.

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 13:34:53 (5850)

2004-03-31 13:34:53# 130. lþ. 91.91 fundur 445#B afgreiðsla þingmannamála úr nefndum o.fl.# (aths. um störf þingsins), GÖrl
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 130. lþ.

[13:34]

Gunnar Örlygsson:

Virðulegi forseti. Á fyrstu mánuðum mínum sem þingmaður hef ég orðið var við vinnubrögð sem koma mér undarlega fyrir sjónir í þinginu. Ber þar hæst meðferð þingmannamála í þingnefndum en þau mæta jafnan afgangi í meðferð og vinnslu nefnda og tel ég þar vera pott brotinn. Mál frá framkvæmdarvaldinu hljóta jafnan skjóta meðferð og stundum er yfirtroðningurinn svo mikill að á síðustu vikum og jafnvel dögum fyrir þinghlé er stórum og yfirgripsmiklum málum frá framkvæmdarvaldinu skotið fram fyrir þingmannamál sem beðið hafa vikum og jafnvel mánuðum saman eftir eðlilegri afgreiðslu í nefndum. Slík vinnubrögð getum við ekki kallað heilbrigt lýðræði.

Það er harkalega vegið að lýðræðinu þegar þingmannamál eru látin daga uppi í nefndum. Það er óvirðing gagnvart þeim sem eiga hagsmuna að gæta í viðkomandi málum og síðast en ekki síst óvirðing gagnvart vinnu og metnaði viðkomandi þingmanna sem fá ekki atkvæðagreiðslu um mál sín á Alþingi. Án nokkurra efasemda tel ég að meiri hluti þingmanna vilji almennt breyta starfsháttum þingnefnda hvað þetta varðar. Ég get ekki séð neina haldbæra röksemd fyrir því að slíkur háttur sé áfram viðhafður að mál þingmanna séu ekki afgreidd út úr nefndum og fái ekki þá lýðræðislegu afgreiðslu að koma til atkvæðagreiðslu með eðlilegum hætti á Alþingi.

Þjóðkjörnir fulltrúar, alþingismenn í þessum sölum, hvort sem um er að ræða úr röðum stjórnarandstöðu eða stjórnarliða eiga að taka höndum saman og breyta gömlum og í raun ólýðræðislegum hefðum í störfum þingnefnda. Ef tími er ekki nógu rúmur fyrir afgreiðslu allra mála út úr nefndum og áfram til meðferðar í þinginu ber alvarlega að huga að uppstokkun á vinnutíma Alþingis yfir höfuð. Sjálfur tel ég að stytta mætti sumarfrí þingmanna til að auka afköstin. Það er algert grundvallaratriði að íslensk þjóð sjái sína þjóðkjörnu fulltrúa hafa þann lýðræðislega rétt að mál þeirra séu almennt og alltaf borin undir atkvæði á Alþingi. Með þeim hætti er tryggt að þegnar þessa lands fái vitneskju um afstöðu allra þingmanna til allra mála sem koma til meðferðar í þinginu.