Afgreiðsla þingmannamála úr nefndum o.fl.

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 13:43:27 (5854)

2004-03-31 13:43:27# 130. lþ. 91.91 fundur 445#B afgreiðsla þingmannamála úr nefndum o.fl.# (aths. um störf þingsins), GAK
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 130. lþ.

[13:43]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Ég tek undir þau viðhorf sem komu fram í máli hv. þm. Gunnars Örlygssonar um störf þingsins. Það er einfaldlega svo að ef við eigum að breyta vinnubrögðum þingsins og gera þau markvissari þurfum við að lengja starfstíma þingsins. Ég tel það einboðið og hef reyndar lýst þeim skoðunum mínum áður, á síðasta kjörtímabili, að það bæri að skoða störf þingsins. Hér er réttilega inni mál um það sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir er 1. flm. að. Ég tel einboðið að farið verði að skoða þingstörfin og tel að þingið eigi að hefja störf mun fyrr á haustin en það gerir, t.d. 10. september, og þingstörfum ætti svo að ljúka kannski í kringum 10. júní.

Með því að lengja þingið með þessum hætti væri hægt að hafa kannski tvö eða þrjú 10 daga hlé inni í þingtímanum og starfa svo mun skipulegar að afgreiðslu mála. Það er ömurlegt að við skulum ár eftir ár flytja hér fjölda mála, þingmenn stjórnarandstöðunnar, sem ekki fá afgreiðslu. Síðan þegar farið er að ræða þessi mál úti í þjóðfélaginu er venjulega viðkvæðið hjá stjórnarliðinu ef spurt er um afstöðu til mála að þau hafi ekki komist út úr nefnd þannig að þau hafi ekki verið kláruð. Fyrir vikið fá kjósendur ekki skýra mynd af því hver afstaða einstakra þingmanna er til einstakra mála. Þetta tel ég óviðunandi og að það eigi að breyta þessum vinnubrögðum. Ég tek mjög undir það sem hér hefur verið rætt um það.