Afgreiðsla þingmannamála úr nefndum o.fl.

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 13:50:32 (5858)

2004-03-31 13:50:32# 130. lþ. 91.91 fundur 445#B afgreiðsla þingmannamála úr nefndum o.fl.# (aths. um störf þingsins), GÖrl
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 130. lþ.

[13:50]

Gunnar Örlygsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmönnum fyrir þátt sinn í umræðunni. Það gleður mig að vita að á meðal hv. þm. stjórnarliða eru einstaklingar sem eru þessu viðhorfi sammála. En að sama skapi er einnig að finna einstaklinga sem eru þessu ósammála.

Ég er sammála því að vinna beri eftir lýðræði. En staðreyndin er einfaldlega sú að hægt er að fara illa með lýðræði án þess að brjóta lög eða reglur. Þetta eru eingöngu spurningar um það hvernig við ætlum að taka á hefðum sem eru að mínu mati orðnar ansi úreltar í störfum þingnefnda. Ég tel það jákvæða þróun, bæði fyrir þingmenn stjórnarandstöðu og líka þingmenn stjórnarliða sem ekki skipa ráðherrasæti, að ná þessu fram. Ég hvet því alla formenn nefnda að íhuga þetta alvarlega, láta þetta velkjast með sér og kannski í raun taka þetta upp á nefndarfundum og ræða þetta áður en kemur til annarra efna þar og það helst á næstunni.