Íslenski þorskstofninn

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 18:12:49 (5928)

2004-03-31 18:12:49# 130. lþ. 92.10 fundur 630. mál: #A íslenski þorskstofninn# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[18:12]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Það er ákaflega flókið gangvirki sem ræður framgangi tegunda og stofna í hafinu. Sé það t.d. rétt sem hv. þingmenn hafa sagt, að það sé skortur á átu á miðum lengra frá landinu þá er ég hræddur um að ekki sé hægt að bæta úr því með stjórnkerfi fiskveiða, a.m.k. ekki því stjórnkerfi sem beinist að bolfiski. Hugsanlegt er að hin mikla sókn í uppsjávarfiska á síðustu árum eigi meiri þátt en við gerum okkur grein fyrir í að fella stoðir undan þorskstofninum.

Tvennt vildi ég nefna sérstaklega. Í fyrsta lagi liggja fyrir rannsóknir sem sýna að stóri hrygningarfiskurinn er mjög mikilvægur varðandi viðkomu þorsksins og nýliðun. Við höfum, a.m.k. til fárra ára, sótt mjög hart í þann stofn.

Í annan stað er það rétt sem hv. þm. Gunnar Örlygsson segir, að með veiðum okkar höfum við valið úr stóra fiskinn og þar með lækkað kynþroskaaldur fisksins. Þarna er um að ræða arfgengar breytingar sem ég held að menn deili ekki um lengur. Minni kynþroskaaldur þýðir líka minni meðalvigt veiddra fiska. Þetta skiptir máli.

Síðan má ekki gleyma því að staðbundnir stofnar virðast skipta meira máli en við gerðum okkur áður grein fyrir.