Meðferðardeild við fangelsi landsins

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 18:54:14 (5945)

2004-03-31 18:54:14# 130. lþ. 92.14 fundur 739. mál: #A meðferðardeild við fangelsi landsins# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[18:54]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég tel brýnt að fangar eigi kost á því meðferðarúrræði sem þeir þarfnast vegna áfengis- og vímuefnaneyslu á meðan afplánun þeirra stendur. Ég vek athygli á því að samkvæmt nýju ákvæði í lögum um fangelsi og fangavist frá árinu 1997 er það á verksviði heilbr.- og trmrn. að annast og bera ábyrgð á heilbrigðisþjónustu við fanga í fangelsum að höfðu samráði við Fangelsismálastofnun. Mér er kunnugt um að af hálfu landlæknis er fylgst náið með framkvæmd þessara mála.

Í því frumvarpi um fullnustu refsinga sem hefur verið til meðferðar hér á þingi og er nú að nýju til athugunar hjá dómsmálaráðuneytinu er ekki gert ráð fyrir því að horfið verði frá þeirri skipan varðandi heilbrigðismál fanga sem lögfest var árið 1997.

Vímuefnameðferð í fangelsum er nú svo háttað að Fangelsismálastofnun hefur í samstarfi við SÁÁ gefið föngum kost á að ljúka afplánun í meðferð. Að öllu jöfnu eiga fangar kost á því að ljúka síðustu sex vikum afplánunar í vímuefnameðferð. Í sumum tilvikum hafa vímuefnameðferðarstofnanir sem Fangelsismálastofnun á í samstarfi við talið að ákveðnir fangar þurfi langtímameðferð og hefur Fangelsismálastofnun veitt leyfi til þess að fangar sæki slíka meðferð meðan á afplánun stendur.

Fangar í fangelsinu á Litla-Hrauni hafa átt kost á því að sækja vímuefnameðferð á öllum stigum afplánunar. Sálfræðingur fangelsisins sem og aðrir heilbrigðisstarfsmenn sem starfa þar hafa veitt föngum með vímuefnavanda meðferð meðan þeir eru í afplánun. Að öllu jöfnu má segja að þeir fangar sem vilja aðstoð við að hætta í vímuefnaneyslu eigi kost á því að fá meðferð meðan á afplánun stendur. Því má ekki heldur gleyma að til þess að vímuefnameðferð eigi að bera árangur er brýnt að stemma stigu við smygli á vímuefnum inn í fangelsi.

Ákvörðun um að koma á fót sérstakri meðferðardeild fyrir fanga byggist á samvinnu yfirvalda fangelsismála og heilbrigðismála. Af hálfu þeirra sem reka fangelsi hafa verið skoðaðir kostir þess að slík deild yrði á Litla-Hrauni. Hefur verið hugað að nauðsynlegum framkvæmdum vegna þess en fjármunum hefur ekki enn verið forgangsraðað í þágu þeirra. Yfirvöld fangelsismála munu halda áfram athugunum sínum á jákvæðum forsendum í samstarfi við þá sem sinna heilbrigðismálum fanga.

Þá er rétt að geta þess að rætt var um sérstök meðferðarúrræði fyrir fanga í nefnd um vanda geðsjúkra afbrotamanna sem skipuð var af heilbr.- og trmrh., en þar átti fulltrúi dómsmrn. sæti. Nefndin taldi brýnt að hugað yrði nánar að uppsetningu sérstakrar vímuefnameðferðardeildar í fangelsi og uppbyggingu og styrkingu úrræða eins og Byrgisins, en undanfarin ár hefur verið nokkur samvinna milli Byrgisins og Fangelsismálastofnunar.

Eins og hér hefur komið fram fer því víðs fjarri að þessi málefni séu ekki á döfinni hjá þeim sem huga að heilbrigði og velferð fanga. Það er ekki spurning um það hvort vilji sé að stíga frekari skref í þessa átt heldur hvernig það verður best gert. Ég mun vinna að þessu máli til að það þróist til réttrar áttar án þess að ég vilji setja nokkur tímamörk í því efni, því í raun tekur viðfangsefni eins og þetta mið af aðstæðum einstaklinga hverju sinni.