Kennaraháskóli Íslands

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 12:21:25 (5983)

2004-04-01 12:21:25# 130. lþ. 93.2 fundur 817. mál: #A Kennaraháskóli Íslands# (dómnefndir, auglýsingar um störf o.fl.) frv., 818. mál: #A Háskólinn á Akureyri# (auglýsing starfa, tímabundin ráðning o.fl.) frv., 819. mál: #A Tækniháskóli Íslands# (auglýsing starfa, tímabundin ráðning o.fl.) frv. menntamál skólar, menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[12:21]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Eins og virðulegur forseti gat um áðan er hér um þrjú frv. að ræða sem eru svona nokkurn veginn samkynja. Ég vil taka sérstaklega fram að í einu frv., þ.e. frv. til laga um breytingu á lögum um Kennaraháskóla Íslands, er örlítið frávik frá hinum tveimur, þ.e. frv. um Háskólann á Akureyri og frv. um Tækniháskóla Íslands. Ég vil strax gera grein fyrir þeim mun.

Í frumvörpunum eru lagðar til breytingar á lögunum sem snerta ráðningar háskólakennara, sérfræðinga og fræðimanna.

Hvað varðar Kennaraháskólann er í fyrstu efnismálsgrein 1. gr. frv. lagt til að kveðið verði á um að háskólaráð setji nánari reglur um nýráðningar og framgang í starfi þar sem einnig er kveðið á um störf dómnefnda og meðferð umsókna. Slíkt almennt ákvæði er ekki að finna í gildandi lögum um Kennaraháskólann, en er að finna í sérlögum um aðra ríkisháskóla. Þá er lagt til að tekin verði upp heimild til undanþágu frá meginreglunni um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem mælir fyrir um það að auglýsa beri laus störf hjá ríkinu. Að mati skólanna er þörf á heimild til að víkja frá meginreglunni um að auglýsa beri laus störf við skólana og stofnanir þeirra í nokkrum nánar ákveðnum tilvikum sem öll byggjast á sérstöðu starfa við skólana. Þessi breytingartillaga hefur að geyma heimild sem í framkvæmd yrði beitt þröngt og einungis á grundvelli nánari reglna sem háskólaráð mun setja. Í frumvörpunum eru tekin nokkur dæmi af störfum sem hér gætu átt við svo sem störf háskólakennara eða sérfræðinga sem byggjast á rannsóknarstyrkjum, störf nemenda sem eru í rannsóknatengdu framhaldsnámi eða störf vísindamanna sem byggjast á sérstökum tímabundnum styrkjum til rannsókna styrkþeganna sjálfra.

Fleiri dæmi eru nefnd í frumvörpunum og ég vísa til umfjöllunar um þau í athugasemdum við þau.

Í annarri efnismálsgrein 1. gr. frumvarpanna er lagt til að skólunum verði heimilað að ráða kennara og aðra til vísinda- og fræðistarfa tímabundinni ráðningu til allt að fimm ára í senn samkvæmt nánari reglum sem háskólaráðin setja. Sambærilegt ákvæði er í gildandi lögum um Háskóla Íslands. Heimild þessi til tímabundinnar ráðningar er rýmri en heimild 2. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, að því leyti til að í því lagaákvæði er miðað við tveggja ára ráðningartíma. Sömu sjónarmið liggja hér til grundvallar og voru við setningu gildandi laga um Háskóla Íslands, þ.e. að starf háskólakennara og vísinda- og fræðimanna hafi þá sérstöðu að það réttlæti lengri tímabundinn ráðningartíma, m.a. þegar litið er til þess tíma sem þarf til undirbúnings starfi og þjálfunar í því. Þá er eðlilegt að samræmi sé milli laga um ríkisháskólana í þessu efni að mínu mati.

Í þriðju efnismálsgrein 1. gr. frumvarpanna er lagt til að heimilað verði að ráða kennara í hlutastarf í samræmi við reglur sem háskólaráð setur. Heimilt verði að tengja starf kennara tilteknu starfi utan háskólanna eða starfi við stofnanir þeirra samkvæmt reglum sem háskólaráð setur.

Heimildarákvæði þessi er að finna í gildandi lögum um Háskóla Íslands og hafa aðrir ríkisháskólar lagt áherslu á að sömu heimildir verði lögfestar í sérlögum sem um þá gilda. Um ráðningu kennara í hlutastarf í samræmi við reglur sem háskólaráð setur er lögð áhersla á að um heimildarákvæði er að ræða og gera verður ráð fyrir að gætt sé sambærilegra hæfniskrafna og gerðar eru til þeirra sem gegna fullu starfi.

Er þá við það miðað að heimildin til að tengja starf kennara tilteknu starfi utan háskólanna eða starfi við stofnanir þeirra samkvæmt reglum sem háskólaráð setur verði ekki bundin við störf hjá opinberum stofnunum eingöngu. Heimild þessi er nauðsynleg til að auka svigrúm háskólanna sem við fjöllum um hér til að tengjast fleiri aðilum utan þeirra, enda vinni háskólarnir markvisst að því að tengja kennslu- og rannsóknastarfsemi sína atvinnulífi og annarri rannsóknastarfsemi í landinu.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið efni þessara frumvarpa í meginatriðum og legg til að þeim verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. menntmn. og 2. umr.