Aukið eftirlit með ferðamönnum

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 15:06:36 (6040)

2004-04-05 15:06:36# 130. lþ. 94.91 fundur 455#B aukið eftirlit með ferðamönnum# (aths. um störf þingsins), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[15:06]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Þessi ákvörðun Bandaríkjamanna er því miður vitnisburður um þá miklu auknu öryggisgæslu sem er í heiminum vegna hryðjuverkastarfsemi og glæpastarfsemi. Að sjálfsögðu eru uppi miklar efasemdir um að þetta gagnist vel en þessi ákvörðun Bandaríkjamanna kemur í framhaldi af því að þeir telja góða reynslu af því að þeir hafi haft slíkar reglur gagnvart öðrum löndum, þ.e. löndum sem þurfa vegabréfsáritun, og nú hefur þessi ákvörðun verið tekin.

Jafnframt hafa verið samþykkt lög í Bandaríkjunum sem gera ráð fyrir því að upplýsingar um lífsýni séu í vegabréfum, þ.e. með tölvuflögum, en bandarísk stjórnvöld telja að þau séu ekki tilbúin til að taka það upp fyrr en haustið 2006. Ég reikna með að önnur ríki séu ekki tilbúin til þess heldur.

Þetta er mál sem hefur lítið verið rætt enn sem komið er af okkar hálfu. Hæstv. dómsmrh. mun að sjálfsögðu ræða þessi mál við önnur Schengen-lönd á þeim vettvangi vegna þess að það verða að gilda alveg sömu reglur á öllu Schengen-svæðinu. Ég býst við að sú verði niðurstaðan og það er þannig með alla ferðamenn sem koma hingað til lands að það eru teknar myndir af þeim á Keflavíkurflugvelli. Það liggur fyrir og með þær upplýsingar er farið samkvæmt íslenskum lögum um persónuvernd. Það liggur sem sagt ljóst fyrir og hefur komið fram í fréttum að undanförnu þegar alvarleg mál hafa verið upplýst að slíkar myndir eru fyrir hendi.