Aukið eftirlit með ferðamönnum

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 15:10:52 (6042)

2004-04-05 15:10:52# 130. lþ. 94.91 fundur 455#B aukið eftirlit með ferðamönnum# (aths. um störf þingsins), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[15:10]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég nefndi það áðan að vegabréf kynnu í framtíðinni að innihalda lífsýni. Það er rangt. Ég átti þar við lífkenni, fingraför eða sambærilegar upplýsingar, svo að það sé enginn misskilningur um það. En okkur er líka mjög í mun hér á landi að Keflavíkurflugvöllur sé talinn öruggur flugvöllur og þar sé nauðsynlegt eftirlit vegna þess að við erum mjög háð samgöngum til annarra landa. Við erum háð samgöngum til meginlands Evrópu, við erum háð samgöngum til Bandaríkjanna og þess vegna verður Keflavíkurflugvöllur að uppfylla nauðsynleg öryggisskilyrði svo að það sé ekkert hik hjá flugfélögum að fara þar í gegn og að Keflavíkurflugvelli sé ekki vantreyst.

Auðvitað gerum við okkur öll grein fyrir því að þessi stígur er vandrataður. En við búum við vaxandi glæpastarfsemi í heiminum. Við búum við vaxandi hryðjuverkastarfsemi. Við vitum jafnframt að þetta kemur við frelsi einstaklinganna, frelsi okkar sem einstaklinga til að ferðast um heiminn. En við höfum þá líka val. Ef einstaklingar vilja ekki ferðast til Bandaríkjanna á þessum forsendum geta þeir að sjálfsögðu tekið ákvarðanir um það. Ég held að sá tími sé kominn, því miður, þar sem vaxandi öryggiseftirlit verður og það er komið til með að verða áfram. Þótt það sé erfitt að sætta sig við það er það nokkuð sem við verðum að búa okkur undir.