Þjóðgarðurinn á Þingvöllum

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 17:50:46 (6074)

2004-04-05 17:50:46# 130. lþ. 94.14 fundur 868. mál: #A þjóðgarðurinn á Þingvöllum# frv. 47/2004, MÁ
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[17:50]

Mörður Árnason:

Forseti. Hér er fram komið gott frv., þarft og gagnlegt, í framhaldi af góðu starfi Þingvallanefndar hin síðustu ár sem ég hef fylgst nokkuð með sem áhugamaður um Þingvelli og er reyndar nokkuð tíður gestur í þjóðgarðinum og nágrenni hans, einkum hin síðari ár.

Með frv., verði það að lögum, vinnst margt, stækkun þjóðgarðsins sem er afar brýnt mál, það að skýrð er betur stjórnskipuleg staða þjóðgarðsins, það að yfirstjórn hans fær auknar heimildir til afskipta af framkvæmdum til að kaupa upp eignarlönd, einkum sumarbústaði og jafnvel beita eignarnámi ef ekki nást sættir, og það að inni er mikilvægt ákvæði í 3. gr. um markmið friðunar sem eðlilega vantar í lögin eins og þau eru nú. Ákvæðið er um að varðveita ásýnd þjóðgarðslandsins sem helgistaðar þjóðarinnar og til að viðhalda eins og kostur er hinu upprunalega náttúrufari. Auk þess eru smærri breytingar, svo sem um þjóðgarðsstjórann sem nú yrði lögum samkvæmt framkvæmdastjóri nefndarinnar. Það vantaði í lögin. Með því væru endanlega aflögð óeðlileg starfstengsl sem áður höfðu tíðkast og menn þekkja. Þetta er allt mjög til bóta enda hefur umsókn okkar um að Þingvellir verði á heimsminjaskrá sett okkur í þá stöðu að kröfur til okkar aukast, ekki einungis vegna þess sem nóg er, þ.e. af hinum íslensku þjóðlegu ástæðum, heldur vegna þess að erlendir menn og heimurinn allur gerir þá kröfu á okkur að við sinnum þessu svæði vel og vegna þess að hlutverk þess og staða á eftir að magnast á næstu áratugum, ekki eingöngu vegna þess að við viljum hafa það þannig með því að setja það á heimsminjaskrá og gera þar ýmsar breytingar heldur líka vegna þess sem hér hefur verið rakið að þetta er einhver allra mikilvægasti útivistarstaður og heimsóknarstaður þorra þjóðarinnar sem í nágrenni hans býr. Raunar hefur mig furðað á því stundum þegar ég kem á Þingvöll hvað þar eru eftir allt saman fáir og raunar hef stundum þóst heppinn hvað fáir fara,. En það gerist á kostnað þeirra sem ekki fara og ég hygg að það verði nú ekki lengi þannig að Þingvellir séu fásóttir.

Það vantar auðvitað frv. það sem boðað er að hæstv. umhvrh. flytji. Það verður að virða við hana að hún hefur hér lýst yfir að það sé á leiðinni á næstu dögum. Þar gerir maður ráð fyrir ákvæðum um vernd vatnasviðsins og vatnasvæðisins. Þar er væntanlega að finna --- og ég kannski spyr um það að gefnu tilefni --- einhvers konar ákvæði um flutninga á vegum. Í þungaflutningum með hættuleg efni t.d., einkum olíu, þarf ekki nema eitt slys á vondum stað til sárrar eyðileggingar á vatninu og umhverfi þess sem ekki má koma fyrir. Það má bara aldrei koma fyrir, svo upp sé tekið orðalag úr lögunum frá 1928. Þar er væntanlega líka að finna ákvæði um lífríki Þingvallavatns sem hér hefur verið rætt, gjámurtuna, stórurriðann, bleikjutegundirnar og öll hin minni dýr sem við þekkjum ekki með nafni en eru undirstaða alls þess lífs sem er nær okkur í hinni dýrafræðilegu flokkun og við kunnum að fylgjast betur með.

Þar vænti ég líka að tekið sé á því sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi áðan, þ.e. að Þingvallavatn er þó ótrúlegt sé miðlunarlón. Að vísu hefur tekist að hemja Landsvirkjun í því að nota það sem slíkt að ráði hina síðari áratugi þannig að eyðilegging stafi af. En það er miðlunarlón samt og á því þurfum við að ráða bót til frambúðar. Það er aðeins eitt ráð við því að lokum og það er að leggja af virkjunina í Soginu og afnema hlutverk Þingvallavatns sem lóns fyrir virkjanir.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur eins og aðrir þátttakendur í þessum umræðum talað af mikilli þekkingu. Ég ætla ekki að endurtaka það sem hann sagði af hálfu Samfylkingarinnar en vil bæta við nokkrum atriðum frá eigin brjósti. Ég bjóst við og hlakkaði til að takast á við þetta mál í umhvn. Mér kemur nokkuð á óvart að því skuli vísað til allshn. og spyr hverju það eigi að sæta. Hið sérstaka í þessu máli felst í því að forsrh. flytur frv. og sérstök Þingvallanefnd stjórnar þessu svæði. En að sjálfsögðu er þetta fyrst og síðast umhverfismál og hefði átt að ganga til umhvn. Ég tek undir orð hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur um það að ef það verður samþykkt, sem ekki er víst, að frv. fari til allshn. þá verði þættir þess faldir umhvn. til umsagnar.

Mig langar að fjalla örlítið um breytingar á markmiðs- og eignarákvæðum sem lagðar eru til í þessu frv. og umfjöllun um þessa stjórnskipulegu stöðu.

Ég tek undir það sem menn hafa sagt hér um vernd Alþingis. Auðvitað er þetta sérstakt mál, sérstæð skipan, að nefnd alþingismanna sem kjörnir eru á þinginu stjórni þjóðgarðinum og væri ekki sjálfsögð ef við værum að búa til þessi lög nú. En þetta hefur gefist nokkuð vel. Þetta hefur tryggt sérstöðu svæðisins og tengsl svæðisins og stjórnar þess við þingið eru nokkuð klár. Það má segja að þingið beri ábyrgð á þessum stað af sögulegum ástæðum. Má þó reyndar minna á að þriðji þingstaðurinn er til, þ.e. Salurinn í Menntaskólanum í Reykjavík. Það væri nú kannski ráð að athuga hvernig tengsl þingsins eru við hann. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon lagði það til hér áðan eða sagði frá þeirri rómantísku hugmynd sinni að þingið yrði sett á Þingvöllum. Kannski ættum við að setja þingið öðru hverju í Salnum í Menntaskólanum í Reykjavík og ganga svo í skrúðfylkingu hingað niður eftir til þess að minnast þeirra ára þegar þingið var þar háð og hét þá í munni skáldanna Alþing hið nýja.

Þetta er sérstakt og við eigum að muna það. Ég tel að stjórnsýsla eigi ekki að vera á vegum þingsins að öðru leyti þó hún sé það að nokkru, t.d. um Jónshús þar sem reglur og yfirráð virðast óskýr og órökrétt. Ég vonast til þess að fá tækifæri síðar til að fjalla um það mál vegna bréfaskrifta minna og forseta þingsins um mál tengd því húsi.

Ég vil svo segja um Þingvallanefnd að hún ætti kannski, þrátt fyrir að ég hrósi henni mjög, að íhuga betri starfshætti. Ætti t.d. nefndin að flytja skýrslu sína hér fyrir þinginu? Ef ekki, ætti hún þá a.m.k. ekki að gera ársskýrslur sem ég finn ekki og veit ekki af? Þær eru t.d. ekki á vefsetri Þingvallanefndar þó þar sé vissulega eins konar stefnuskrá um þjóðgarðinn sem sómi er að.

Ég rek eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir augun í orðalag í lögunum frá 1928 og það ekki í fyrsta sinn því þetta er nokkuð frægur staður í íslenskum lögum. Þar segir að frá ársbyrjun 1930 skuli Þingvellir við Öxará og grenndin þar vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga. Síðar segir í 4. gr., með leyfi forseta:

,,Hið friðlýsta land skal vera undir vernd Alþingis og ævinleg eign íslensku þjóðarinnar. Það má aldrei selja eða veðsetja.``

Þetta er hátíðlegt orðalag og sennilega einstætt í lögunum. Ég spyr: Af hverju má það ekki haldast? Í frv. stendur að það skuli vera eign íslensku þjóðarinnar en ekki ævinleg eign eins og 1928 og að óheimilt sé að selja það eða veðsetja en ekki að aldrei megi selja það eða veðsetja. Þetta vekur spurningar um meira en orðalag vegna þess að meginbreytingin er sú að Þingvellir verða nú þjóðgarður sem okkur finnst reyndar að þeir hafi alltaf verið en hafa ekki verið lögformlega.

[18:00]

Um þjóðgarða gilda ákveðnar skilgreiningar, m.a. í náttúruverndarlögum, nr. 44/1999. Í 51. gr. 2. mgr. segir, með leyfi forseta:

,,Landsvæði þjóðgarða skulu vera í ríkiseign nema sérstakar ástæður mæli með öðru og um það náist samkomulag milli ráðherra og landeigenda.``

Hvað ríkiseign er er í raun ekki ljóst í neinum lögum. Það er ákveðinn galli í stjórnarskránni og lögskýringum öðrum að þetta hugtak er ekki skýrt. Spurningin er hvort ríkiseign í náttúruverndarlögum er hið sama og sú eign sem talin er upp í frv. til laga um friðun Þingvalla, hvort ævinleg eign íslensku þjóðarinnar sé það sama og ríkiseign? Margt bendir til þess að svo sé ekki. Mætti raunar segja að ákvæðin um það að sérstakar ástæður mæli með öðru eigi við það í lögum um Þingvelli að þeir séu í þjóðareign en ekki í ríkiseign, öfugt við það sem ég tel að þetta ákvæði geri ráð fyrir í öðrum þjóðgörðum. Það er væntanlega sett inn til þess að geta komið þar fyrir einkaeign á landi eða öðru.

Um þessar skilgreiningar var rætt fyrir nokkrum árum í fræðilegum umræðum um eign auðlindarinnar í hafinu. Um þetta fjallaði einnig auðlindanefnd. Þorsteinn Gylfason taldi í ágætri grein sinni fyrir nokkrum árum upp þrenns konar þjóðareign: ótvíræða þjóðareign, sem væru Þingvellir vegna þessa orðalags; Skarðsbók, vegna þess að hún var gefin íslensku þjóðinni; og Hnitbjörg og safn Einars Jónssonar, sem líka voru færð að gjöf íslensku þjóðinni. Þjóðin erfði Einar Jónsson en ekki t.d. íslenska ríkið eða Listasafn Íslands. Fleiri dæmi mætti nefna.

Það virðist ljóst og staðfestist kannski einkum í lögum um friðun Þingvalla að til er hlutur sem heitir þjóðareign og er ekki það sama og ríkiseign þó að ríkiseign eða eign ríkisins virðist, t.d. í þjóðminjalögunum um forngripi, merkja enn annað en sama hugtak merkir þegar átt er við fasteignir ríkisins eða einstakar jarðir á vegum ríkisins, sem má selja og veðsetja. Maður býst ekki við, þó það sé ekki ótvírætt í þjóðminjalögunum, að það megi gera við forngripi í Þjóðminjasafninu. Raunar stendur að þá skuli varðveita á safni og þar með má túlka það svo að ríkinu sé óheimilt að koma þeim í verð. Þetta sýnir allt nauðsynina á því að skilgreina með ótvíræðum hætti hvað er þjóðareign, hvað er raunar þjóðarforsjá, þar sem ekki er um eign að ræða t.d. á fuglum, farfuglum. Hvað er ríkiseign, t.d. í þjóðminjalögum, ef það er annað en í Þingvallalögunum? Hvað er síðan einkaeign ríkisins, jarðir og fasteignir?

Meðan þetta er óvíst tel ég óráðlegt að breyta þessu orðalagi laganna frá 1928, frá Jónasi Jónssyni frá Hriflu. Ég tel að við eigum að halda, þannig að ótvírætt sé fyrir þá sem á eftir koma, orðalagi þingsins frá 1928 um ævinlega eign og að aldrei skuli land þjóðgarðsins á Þingvöllum selt eða veðsett. Ljóst er að í frv. er tekið undir þá hugsun sem að baki lá árið 1928 og þarf engar deilur um það þegar kemur að því að skilgreina betur í stjórnarskrá hvernig háttað er um eign ríkisins og um eign þjóðarinnar.

Ég vil bæta því við að eins og ég sagði er 3. gr. frv. til mikilla bóta, um það að landið skuli friðað í ákveðnu skyni, þ.e. að varðveita ásýnd þess sem helgistaðar þjóðarinnar og viðhalda eins og kostur er hinu upprunalega náttúrufari. Hér komin leiðsögn fyrir Þingvallanefnd og þá aðra sem um þetta helga land véla, raunar sama leiðsögn og Þingvallanefnd hefur sett sér undanfarin ár og kemur fram í ýmsum verkum.

Ég vil vekja athygli á því að tillaga sem ég og Karl Valgarður Matthíasson, fyrrv. þingmaður, fluttum fyrir tveimur árum, að mig minnir, fellur einkar vel að þessum markmiðum. Hún var um að upphefja mannanna gerð á þessum stað þar sem er brúin sem sett var 1911, steinbrú í stað trébrúar sem sett var 1897 yfir Öxará, á þeim stað þar sem vatn fellur úr Drekkingarhyl og niður í flúðum. Þessi brú, sem meira að segja í greinargerðinni með lögunum 1928 er kölluð ýmsum ónefnum, er lýti á staðnum. Hún gerði tvennt í senn. Hún tók af foss sem helst er kallaður Neðrifoss og féll á þessum stað, fagur foss þótt hann stæðist auðvitað ekki Öxarárfoss að fegurð og breytti Drekkingarhyl úr djúpum hyl í poll sem hefur í raun og veru enga eða mjög litla sögulega tilvísun eins og hann er nú. Ég vænti þess að geta í umræðum um þetta mál í umhvn. komið þessu sérstaklega að þegar fjallað er þar um 3. gr. frv. Ég skora raunar á Þingvallanefnd að athuga þetta mál sérstaklega.