Þjóðgarðurinn á Þingvöllum

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 18:07:26 (6075)

2004-04-05 18:07:26# 130. lþ. 94.14 fundur 868. mál: #A þjóðgarðurinn á Þingvöllum# frv. 47/2004, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[18:07]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér var minnst á söluheimild og þá þætti sem að því lúta og breytt orðalag, eins og talað er um. Hér segir, með leyfi forseta, í 1. gr. frv.:

,,Hið friðhelga land skal vera eign íslensku þjóðarinnar og er óheimilt að selja það eða veðsetja.``

Í sjálfu sér er þessu haldið inni til hátíðarbrigða. Þetta er algjörlega óþörf setning. Þegar hin fyrri setning kom inn í fyrri lögunum frá árinu 1928 var ekki búið að setja reglur um það í stjórnarskrá að slíkar eignir mætti ekki selja nema með heimild Alþingis. Það hefur hins vegar verið gert núna. Þessa vegna er þetta orðalag óþarft en haft inni til hátíðarbrigða, nákvæmlega.

Þetta eru almenn lög og þau breyta engu um heimildir Alþingis. Alþingi getur út af fyrir sig, ef það kýs, selt einhverja hluti úr þessu landi hvað sem þessi lög segja. Þetta er ekki stjórnarskrá. En í stjórnarskránni segir --- en svo var ekki fyrir árið 1928 --- með ótvíræðum hætti að ekki megi selja eignir ríkisins nema með heimild Alþingis. Þetta er í raun óþarft að hafa inni en var ekki óþarft þá, því þá var ekki stjórnarskrárákvæði um þetta efni. Þessu er því haldið, í raun eins og hv. þm. talaði um, til hátíðarbrigða en ekki vegna þess að það hafi efnislega merkingu.