Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 20:04:47 (6097)

2004-04-05 20:04:47# 130. lþ. 94.15 fundur 849. mál: #A olíugjald og kílómetragjald o.fl.# (heildarlög) frv. 87/2004, GAK
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[20:04]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Ég vil taka það fram í upphafi máls svo það fari ekki á milli mála að ég held að lítið annað sé fyrir okkur að gera en reyna að komast þá leið sem mörkuð er með þessu frv. af hæstv. fjmrh., þ.e. að taka upp olíugjald og kílómetragjald og leggja þungaskattskerfið af í eins miklum mæli og mögulegt er. Þar af leiðandi tel ég að ekkert sé annað að gera en vinna að frv. og reyna að lagfæra það eins og menn hafa best vit á því að betur sjá augu en auga. Þó hæstv. fjmrh. hafi vafalaust fengið sér marga til ráðgjafar kunna menn að vilja skoða ýmislegt í þessu máli.

Miðað við fjárhæð olíugjaldsins, 45 kr. á hvern olíulítra, þá tel ég að olíuverðið verði ansi hátt með tilliti til bensínsverðsins. Ég heyrði hæstv. fjmrh. nefna að eftirsóknarvert yrði að fara í meira mæli yfir í dísilbíla. Ég er ekki viss um að það sé eins áhugavert og það þyrfti að vera miðað við gjaldtöku þá af olíu sem við setjum hér inn. Þetta vildi ég segja almennt.

Hæstv. forseti. Þegar svo talað er um tollskrá í 4. gr. þá átta ég mig ekki alveg á hvað þar er nákvæmlega átt við. Ég hef ekki flett því upp reyndar. Það væri gaman að heyra skýringar á því hvaða ökutæki falla undir vörulið 8705. Vel getur verið að það sé einhvers staðar talið upp en ég hef alla vega ekki komið auga á það. Ef hæstv. fjmrh. gæti í stuttu máli vikið að því þá þakkaði ég honum fyrir það. Ég verð þá betur upplýstur á eftir.

Hæstv. forseti. Þeir sem hafa átt dísilbíla á undanförnum árum bæði í atvinnurekstri og sem einkabíla hafa keypt sér ökutæki, dísilbíla með tilliti til notkunar sinnar og verkefna eðlilega og hafa þá hagað kaupum á tækjum miðað við gildandi lög. Það erum við auðvitað alltaf að gera. Við erum að vinna út frá gildandi lögum. Ég vildi því heyra hæstv. fjmrh. víkja nokkrum orðum að því hvaða staða kæmi upp hjá þeim sem hafa tiltölulega nýlega fjárfest í tækjum. Ef þeir gætu sýnt fram á að eftir þessa breytingu yrði hagur þeirra allt annar en þeir hefðu gert ráð fyrir, ætti þá ekki að skoða einhverja aðlögun í því? Ég geri mér vissulega fyllilega grein fyrir því að almenn lög sem taka á þessari gjaldtöku sem hér er boðuð ná ekki út yfir öll atriði. En það er sjálfsagt að skoða þetta ef eitthvað gengur virkilega á skjön við það sem menn hafa verið að vinna eftir.

Mig langar aðeins að víkja að akstri flutningabíla sem keyra á þjóðvegum landsins, t.d. á malarvegum kannski einn fimmta þeirrar vegalengdar sem þeir aka daglega við sína flutninga. Á kannski 500 km leið eru yfir 100 km malarvegir. Allir vita að þegar malarvegir verða blautir þá er erfitt að keyra þá. Það er einfaldlega svo að við þurrar og góðar aðstæður er olíunotkunin kannski 50 lítrar á möl en getur farið upp í 80--90 lítra við erfiðar aðstæður. Og það sem meira er, við þessar erfiðu aðstæður hagar líka oft þannig til að jafnframt eru þungatakmarkanir þannig að flutningurinn sem menn komast með eftir vegnum er ekki í samræmi við þá burðargetu sem ökutækið hefur öllu jafnan og getur notað. Þetta kemur auðvitað allt rekstri viðkomandi aðila við, þ.e. hvað hann er að gera, hvaða leið hann ætlar að keyra og hvernig hann ætlar að hafa hag af keyrslu sinni því atvinnureksturinn gengur út á það að menn hafi eitthvað út úr þessu. En þá kemur þetta til viðbótar. Við erfiðar aðstæður eyða bílarnir mun meiri olíu, hraðinn minnkar en olíuneyslan vex, og þar að auki er svo þungi þess sem þeir flytja takmarkaður. Með olíugjaldinu eru menn auðvitað við erfiðar aðstæður í raun að greiða hærri gjöld. Þeir eyða miklu fleiri lítrum og eru jafnframt kannski undir þungatakmörkunum. Þessar aðstæður verða kannski ekki mjög oft á ári en það er alveg örugglega hægt að sýna fram á að menn geta lent í þó nokkuð miklum kostnaði, jafnvel þannig að ferðirnar standi alls ekki undir sér við aðstæður með þessu lagi jafnvel þó engar þungatakmarkanir séu, heldur einfaldlega vegna færðar. Að þessu vildi ég víkja. Þetta er auðvitað ein hlið þess sem snýr að því þegar búið er að setja fjárhæðirnar inn í olíuna. Þá verður þetta með þessum hætti. Að þessu finnst mér þurfa að huga. Nú er þetta allt skráð hjá Vegagerðinni, þ.e. ástand vega og hvenær þungatakmarkanir eru gefnar út og menn vita nokkurn veginn hvað þetta eru margir dagar á ári. Það er einnig vitað hversu marga kílómetra menn keyra á malarvegum á ákveðnum leiðum, hvort heldur til Vestfjarða eða Norðausturlands o.s.frv. Þá kemur spurning í framhaldi af þessum formála mínum: Er hugsanlegt að þeir sem búa við það að aka á erfiðum vegum og lélegum og þurfa vegna þeirra aðstæðna að bera mun meiri kostnað en aðrir í sambærilegri atvinnustarfsemi, fái einhvern afslátt af gjöldum miðað við hversu langan vegkafla þeir þurfa að aka daglega á malarvegum?

Röksemdin á móti þessu er hins vegar sú að menn slíta vegunum. Þeir geta verið að slíta þeim mjög mikið við þær aðstæður þegar vegirnir eru slæmir. En við erum komin með nánast alla okkar flutninga á vegina úr skipum og vörunum þarf að koma milli staða. Oft getur skipt miklu að vara komist á leiðarenda hvort sem það er utan af landi, t.d. inn á flug með ferskan fisk, eða þá að ákveðnar vörur vantar einfaldlega til viðkomandi landshluta eða varahluti o.s.frv. Þetta er eitt af því sem ég vildi vekja athygli á.

Virðulegi forseti. Fjöldamargar spurningar snúa svo að notkun mismunandi ökutækja en skýrast ef til vill eitthvað þegar farið er yfir þessa tollskrá sem hér er vitnað til. Ef menn eiga kranabíl með palli þá telst hann vörubíll og keyrir á dýrri olíu. Aðrir eru svo með krana á bíl sem ekki er pallbíll og þá keyrir hann á ódýrri olíu. Báðir vinna sömu verkin. Ég geri náttúrlega ráð fyrir því að menn hafi keypt sér þessi tæki á undanförnum árum með tilliti til þeirra verka sem þeir hafa notað þau í og með tilliti til þess kerfis sem hefur verið við lýði. Þess vegna vék ég áðan að stöðu atvinnurekenda að þessu leyti. Sama á svo við um fjöldamörg önnur ökutæki, t.d. ámoksturstæki, þ.e. vörubíla með ámoksturstæki eða klær fyrir grjót. Þeir nota dýra olíu. En grafa hins vegar sem gerir nákvæmlega sama hlutinn, ef ég hef skilið þetta rétt, notar ódýra olíu. Til eru traktorsgröfur sem komast á 70--80 km hraða í dag. Menn þurfa því að fara í gegnum alls konar svona skilgreiningar. Samt er alveg ljóst, og ég geri mér það alveg ljóst, að í svona löggjöf er afar erfitt að ná utan um öll svona atriði. En það er rétt að vekja athygli á þeim þannig að menn skoði þau.

[20:15]

Ég tek undir það með hæstv. fjmrh. að okkur er ekkert að vanbúnaði með að taka til við að laga eitthvað í lagasetningunni næsta haust eða jafnvel næsta vetur ef við sjáum að eitthvað í framkvæmdinni fer öðruvísi eða á skjön við það sem menn ætluðu. Það er auðvitað sjálfgefið að skoða málin út frá þeim fleti. Það kom greinilega fram í máli hæstv. ráðherra.

Nefna mætti fleiri dæmi, t.d. körfubíla sem fluttir eru inn sem körfubílar. Þeir eru á ódýrari olíunni en körfubílar með krana og vörubílspall keyra á dýru olíunni en eru kannski báðir í sömu verkunum. Hér er margt sem þarf að velta fyrir sér. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvar á að draga þessa samkeppnislínu en líklega þarf að skoða ýmis tilvik út af fyrir sig.

Ég rak í það augun að á sumum stöðum í frv. er talað um refsiákvæði eða annað slíkt, t.d. í 20. gr. Þar segir:

,,Skýri gjaldskyldur aðili skv. 3. gr. af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi rangt eða villandi frá einhverju því sem máli skiptir um skyldu sína til greiðslu olíugjalds skal hann auk ógreidds gjalds greiða sekt sem nemur allt að tífaldri, og aldrei lægri en tvöfaldri, þeirri fjárhæð sem dregin var undan eða vanrækt var að greiða.``

Ég velti fyrir mér, virðulegi forseti, hvert við erum komin í þessari framsetningu. Ef ég man rétt er kveðið á um það í skattalögum --- hæstv. fjmrh. leiðréttir mig ef það er rangt --- að ef okkur verði á þá greiðum við tvöfalda upphæðina sem við gleymdum að telja fram? (Fjmrh.: Jafnvel tífalt.) Er það jafnvel tífalt? Ég velti því fyrir mér, virðulegi forseti, hvort þetta sjálfvirka ákvæði um allt að tíföldun, þetta kemur fyrir á fleiri stöðum, eigi við rök að styðjast. Í 20. gr. segir einnig að þetta eigi við þótt upplýsingar hafi hvorki haft áhrif á greiðslu viðkomandi né viðskiptamanna hans á olíugjaldinu, jafnvel þótt stórkostlegt gáleysi hafi verið að ræða. Nú kemur upp sú staða, hæstv. fjmrh., að verktakafyrirtækin verða með tvo tanka. Þau verða með tank með litaðri olíu og tank með ólitaðri olíu. Það þarf ekki nema að einn starfsmaður að dæli vitlaust. Þá getur komið upp sú staða að af þessu gáleysi keyri menn á litaðri olíu. Það er ekki einu sinni víst að bílstjórinn dæli á olíunni. Það getur verið einhver annar starfsmaður fyrirtækisins. Mér sýnist að jafnvel í þessu tilfelli megi sekta um tífalda þá fjárhæð sem um væri að ræða.

Ég hef almennt ákveðnar efasemdir um gjaldtökuákvæðin þegar um gáleysi er að ræða, að menn beri tífaldan skaða af gáleysinu. Þetta er siðferðileg spurning um hve langt skuli ganga. Á móti má hins vegar benda á að hæstv. fjmrh. ætlar ekki að greiða til baka ef hann oftekur nema 2/3, ef ég man það rétt sem stendur í frv., ef innheimtumenn hans hafa tekið of mikið. Það er því ekki mikið jafnræði með aðilum í þessu, hæstv. forseti.

Ég vildi draga þetta fram í þessari umræðu almennt. Ég hef áhyggjur af því að of lítill verðmunur verði á dísilolíunni og bensíninu til að sú þróun fari af stað sem hæstv. ráðherra lýsti, að menn fari almennt meira yfir í dísilbíla. Svo má velta fyrir sér, og það á eftir að upplýsast betur í nefndinni, hvort áhrifin á mengunina eru nákvæmlega eins og um er talað, þ.e. að dísilbílarnir mengi ávallt minna miðað við brenndan olíulítra. Hins vegar er ljóst að þeir eyða minna. Þannig kemur það út miðað við ekna kílómetra.

Að lokum, hæstv. forseti, vildi ég nefna eitt dæmi enn. Vörubíll sem setur snjóplóg framan á bílinn sinn greiðir hærra gjaldið eftir því sem ég skil það. En séu menn með raunverulegan snjóplóg þá er notuð ódýrari olía. Alls konar svona atriði finnst mér að menn þurfi að skoða og velta fyrir sér og hvar eigi að draga línurnar.

Ég vil ljúka máli mínu á því að taka fram að við eigum ekki að hika við að fara þessa leið og reyna síðan að betrumbæta lögin ef á þarf að halda.