Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 20:21:54 (6098)

2004-04-05 20:21:54# 130. lþ. 94.15 fundur 849. mál: #A olíugjald og kílómetragjald o.fl.# (heildarlög) frv. 87/2004, JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[20:21]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um olíugjald og kílómetragjald o.fl. sem hæstv. fjmrh. hefur mælt fyrir. Eins og ráðherra hefur rakið hefur málið komið ítrekað fyrir þingið og um það verið fjallað á undanförnum árum og jafnvel áratugum.

Við höfum þessa leið í skattheimtunni, að skattleggja umferðina með einum eða öðrum hætti. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á er aðalforsenda þessa máls að afla tekna í ríkissjóð. Til þess liggur til grundvallar skattur á notkun á olíu og bensíni, einnig er hægt að leggja skatt á hvern ekinn kílómetra og í þriðja lagi eru lagðir skattar á ökutækið sem slíkt. Fyrsta markmiðið er að skaffa tekjur.

Í öðru lagi er dregið fram í greinargerð með þessu frv. að í gegnum skattlagninguna megi stýra notkuninni og hafa áhrif á val ökutækja, tækja sem eru skattgrunnur, að umhverfisvænni notkun. Mér sýnast þetta þeir tveir meginþættir sem við erum að takast á við.

Spurningin er um hvar við drögum markalínur, hvernig við högum skattlagningunni og hvernig við högum stýringunni. Það er ljóst að það er ekki markmið í sjálfu sér að breyta verulega heildartekjumunstri ríkisins í gegnum þennan skattstofn sem notkun véla, tækja og bifreiða er.

Hér er lögð til sú grundvallarbreyting að meginskattstofninn hvíli á olíunotkuninni, þetta frv. snýr fyrst og fremst að hráolíunni, og því kerfi breytt sem áður hefur verið notað með fastagjaldi á dísiltæki og kílómetragjaldi á ákveðinn flokk ökutækja. Ég held að í megindráttum sé hægt að vera sammála því sjónarmiði sem frv. byggir á, að beita skattheimtunni á notkunina í því formi að hagkvæmt verði að nota umhverfisvænni og sparneytnari bíla og önnur tæki sem brenna olíu þannig að þau mengi sem minnst. Ég tel það eðlilegt og gott markmið sem lagt er upp með. Ég tel rétt að unnið verði á grundvelli þessa frv. í að koma því kerfi á sem byggir á olíunni með einum eða öðrum hætti í grunnskattstofni fyrir ríkissjóð.

Það má svo velta fyrir sér nálguninni. Hér hefur verið dregið fram hvernig breytingin kemur niður á einstökum stærðum bíla og tækja. Það er líka sjálfsagt að skoða hvað kerfið kostar í sjálfu sér. Hvað kostar að koma þessu kerfi á? Erum við að fara einföldustu og bestu leiðina eða ekki? Í frv. er lagt til að nota tvenns konar olíu, annars vegar litaða olíu sem fari á tæki sem eiga að njóta endurgreiðslu eða greiða þungaskatt og hins vegar ólituð olía sem sé til almennra nota. Við eigum þar með að hafa tvöfalt kerfi fyrir olíunotkun og auk þess kílómetragjald, kílómetramæla á flutningabílum sem eru umfram ákveðna þyngd. Áfram verðum við með nokkuð flókið kerfi sem liggur ekki endilega fyrir hversu dýrt verður í sjálfu sér.

Ég hefði viljað sjá að leitast hefði verið við að gera þetta kerfi enn þá einfaldara og hafa bara eitt notkunartengt kerfi, eina tegund olíu og finna þá endurgreiðsluleiðir til þess að greiða til baka þeim aðilum sem eðlilegt og sanngjarnt er að greitt sé til baka og greiði ekki svo hátt olíugjald. Ég mundi vilja eitt kerfi og að efh.- og viðskn. kannaði mjög rækilega hvort ekki sé hægt að finna leið til að hafa eitt olíugjald, hvort ekki sé hægt að losna við þetta kílómetragjald og taka upp föst gjöld í staðinn sem eru miklu einfaldari upp á eftirlit að gera. Kílómetragjaldið kostar mælalestur og eftirlit og ef það helst áfram eins og hér er lagt til erum við nánast enn, að nokkru leyti, með tvöfalt og jafnvel þrefalt kerfi í gangi.

Ég vil leggja áherslu á að kannað verði hvort ekki megi einfalda þetta kerfi frá því sem hér er lagt til, bæði til að hafa áhrif á hagkvæmari notkun á olíu sem stuðla mundi að sparneytni og einnig til að einfalda kerfið þannig að það verði sem ódýrast í framkvæmd.

Ég vil taka undir það sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson vék að varðandi olíunotkunina. Það skiptir verulegu máli við hvaða aðstæður er ekið þegar gjaldið verður miðað við notkun. Þá skiptir verulegu máli hvort ekið er á malarvegum, þar sem verður að aka miklu varlegar, og eins til aksturs í snjó o.s.frv. Skoða þarf aðstæður sem skapa meiri olíunotkun. Þetta á við víðast hvar úti á landi og lýtur bæði að flutningum á landi, flutningabílum, og eins að notkun á bílum innan svæða. Víða til sveita eru menn mun háðari því að vera á nokkuð öflugum jeppum og malarvegirnir eru með þeim hætti að olíunotkun á slíkum vegum verður mun meiri en ella. Þarna skapast nokkur ójöfnuður gagnvart öðrum vegfarendum sem nota vegina.

Hins vegar verður náttúrlega áfram markmið fyrir alla, hvaða bílum sem þeir aka eða við hvaða aðstæður ekið er, að stefna að sem mestri sparneytni. Sá hvati er góðra gjalda verður í þessu frv.

[20:30]

Ljóst er að mismunun gæti orðið á þeim sem búa við bestar vegaaðstæður og hinna sem búa við verri vegaaðstæður, að þeir muni verða að borga hærra gjald á hvern ekinn kílómetra vegna meiri eyðslu. Mér fyndist að það ætti að huga að því í útfærslu frv.

Hæstv. ráðherra lagði mikla áherslu á umhverfisþáttinn og mengunarþáttinn og ég tek heils hugar undir það. Ég vildi þess vegna gera að umtalsefni hvort við gætum ekki haft áhrif á að þungaflutningar færðust í auknum mæli aftur út á sjó í gegnum skattlagninguna. Þungaflutningarnir eru komnir á land þrátt fyrir að það sé rækilega viðurkennt að þungaflutningar á landi eru bæði dýrari á magneiningu miðað við eðlilegar skipaferðir og einnig er miklu meiri mengun af landflutningum á þungavörum en á sjó. Ég, ásamt fleiri þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, hef flutt till. til þál. um strandsiglingar, um að skoða möguleika á að efla strandsiglingar til að lækka flutningskostnað á þungavörum eða pakkavörum sem ekki þurfa endilega að berast hratt á milli staða.

Í skýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum sem starfshópur á vegum samgrn. og Vegagerðarinnar vann og birti niðurstöður sínar árið 2001 segir að sama magn af vörum sem er flutt með bíl eða skipi milli Reykjavíkur og Ísafjarðar, að mengunin er a.m.k. sjö sinnum meiri á landi en á sjó, koltvísýringsmengunin.

Mér finnst því að þegar við ræðum þetta út frá þeim forsendum sem hæstv. ráðherra lagði réttilega mjög þunga áherslu á, út frá umhverfis- og mengunarforsendum, og við höfum líka undirgengist alþjóðlega samninga um markmið til að draga úr gróðurhúsalofttegundum, sem eru mjög miklar í flutningskerfinu í notkun olíu, og við höfum undirgengist ákveðin markmið í samgöngum, að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum. Því eigum við að taka í markmiðssetninguna við skattlagningu á olíu og umferð í landinu hvaða pólitíska stefnu við viljum marka, því þetta er náttúrlega pólitísk stefna sem verið er að marka með olíugjaldi og kílómetragjaldi. Þá eigi að horfa á þetta í heild sinni og athuga hvernig við getum með pólitískri stefnumörkun haft þau áhrif að við drögum úr menguninni og styrkjum og eflum hagkvæmni flutninganna sem allar skýrslur benda til að sé hagkvæmara að fari fram á sjó á þeim þungavöruflutningi sem þar getur farið fram. Þetta finnst mér að við getum gert og hugað að í gegnum skattlagninguna. Við eigum að horfa á málin heildstætt, hvers konar flutningskerfi viljum við hafa hér á landi, út frá hvað er ódýrast, hagkvæmast og hvað hefur jákvæðustu og bestu áhrif á umhverfið og hver er minnsta mengunin í starfseminni sem við að sjálfsögðu verðum að hafa sem besta. Við eigum að horfa á þetta heildstætt en ekki taka bara alltaf einn bút út og fjalla um hann.

Það liggur fyrir stefnumörkun í samgöngumálum, samgönguáætlun tekur bæði til fólksflutninga og vöruflutninga. Eitt af meginmarkmiðum þar er að líta til umhverfisþáttanna. Þá megum við ekki bara horfa á landið. Við eigum að horfa á þá flutningsmöguleika sem móta kerfið sem við erum að byggja upp, búum við, og við eigum að hafa pólitíska stefnumörkun fyrir það í heild en ekki bara bút fyrir bút. Þetta vil ég draga inn í umræðuna og leggja áherslu á að við horfum á flutningsmálin heildstætt og samkvæmt þeim markmiðum sem hæstv. fjmrh. lagði fram. Við erum með ákveðna skattheimtu, ákveðna þörf á flutningi, ferðum og akstri og við erum líka með ákveðna kröfu, ósk og stefnu í umhverfismálum að notkun okkar á flutningstækjum og farartækjum mengi sem allra minnst og þá ber okkur að horfa á málið í heild sinni.

Herra forseti. Þetta voru helstu atriðin sem ég vildi minnast á, þau grundvallaratriði sem menn eiga að byggja á þegar þeir leggja fram frv. á þessum vettvangi sem tekur til þeirra þátta sem hefur verið vikið að, að horfa á málið heildstætt og vinna út frá því.