Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 21:04:53 (6106)

2004-04-05 21:04:53# 130. lþ. 94.15 fundur 849. mál: #A olíugjald og kílómetragjald o.fl.# (heildarlög) frv. 87/2004, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[21:04]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég átta mig ekki alveg á því af hverju hv. þm. tók krók á leið sína í ræðunni til þess að víkja að umræðunni um veggjöld með þeim hætti sem hann gerði en það er útúrsnúningur hjá hv. þm. að tala um þá umræðu eins og hann gerði. Ljóst hefur verið nokkuð lengi að stefnt væri að miklum vegamannvirkjum út úr borginni að norðanverðu og hv. þm. hefur ásamt hæstv. samgrh. sjálfum margoft nefnt möguleikana á því að notast yrði við einhver veggjöld við þau mannvirki. Þá standa menn frammi fyrir því að svo gæti orðið að verið væri að innheimta veggjöld á tveimur stöðum ef menn koma norðan að borginni en hvergi ef menn koma sunnan að henni. Nógu há eru gjöldin í Hvalfjarðargöng þó ekki verði þannig að málum staðið. Hér hefur skort stefnumörkun og kallað hefur verið eftir henni hvað eftir annað. Sú stefnumörkun er ókomin enn. Ríkið eignast Hvalfjarðargöngin á 20 árum samkvæmt þeim samningum sem gerðir voru og tekur virðisaukaskatt ofan á gjöldin sem þar eru innheimt. Menn hafa því gengið lengra fram en skynsamlegt er og auðvitað þarf að lækka þessi gjöld verulega og koma til móts við íbúana. Einnig þarf að hugsa fyrir því ef menn ætla að hafa þann möguleika að taka gjöld í önnur mannvirki að eitthvert samræmi sé í því og einhver sanngirni hvað varðar umferð um borgina, að menn borgi ekki bara ef þeir koma að norðan en ekkert ef þeir koma að sunnan.