Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 21:30:23 (6112)

2004-04-05 21:30:23# 130. lþ. 94.15 fundur 849. mál: #A olíugjald og kílómetragjald o.fl.# (heildarlög) frv. 87/2004, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[21:30]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir ágætar umræður hér um þetta mál og að mestu leyti málefnalegar. Ég tel að málið hafi fengið býsna góðan stuðning í þessari umræðu. Auðvitað liggur það fyrir væntanlega af allra hálfu að ætlast er til þess að efh.- og viðskn. fari vandlega yfir málið og ráðuneytið mun að sjálfsögðu leggja þar fram allar upplýsingar um málið og útreikninga sem fyrir liggja. Þá tel ég að enginn vafi sé á því að menn komist að þeirri niðurstöðu að kostir málsins séu fleiri og veigameiri en gallarnir. En auðvitað eru þeir einhverjir og veltur það á því hvernig hver og einn metur útkomuna.

Það liggur t.d. alveg ljóst fyrir að hv. þm. Kristján Möller er búinn að gera það upp við sig að gallarnir í þessu máli séu svo veigamiklir að þeir yfirgnæfi kostina. Ég get ekki túlkað orð hans öðruvísi en svo. En flestir aðrir sem að málinu hafa vikið í dag meta það öðruvísi eða koma að því með opnari hug en hann þó að hann hafi að vísu, eins og ég gat um hér fyrr í umræðunni, verið jákvæðari en áður mátti halda.

Ég ætla að víkja að nokkrum atriðum sem nefnd hafa verið í umræðunni. Ég vil sérstaklega víkja að atriðum sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson gat um. Þau voru mörg og ágæt, t.d. spurningin um hvort olíugjaldið væri of hátt miðað við þessar 45 kr. Það er vissulega nokkuð hátt vegna þess að með því og með virðisaukaskattinum og hugsanlega breyttum álagningarviðmiðunum olíufélaganna slagar það upp í bensínverðið, sem er ókostur vegna þess að hugmyndin er sú að gera þetta kerfi þannig úr garði að það verði ótvírætt hvatning til þess fyrir menn að fara yfir í dísilbíla. Eigi að síður, jafnvel þó verð á bensíni og dísilolíu væri það sama, eru hagsmunir flestra þeir að fara yfir í dísilknúna bíla vegna þess að þeir eyða svo miklu minna. Ef það tekst að koma því í kring á einhverju tímabili að dísilfólksbílar verði fluttir hingað inn í einhverjum mæli má gera ráð fyrir að þeir lækki í verði og að sá verðmunur sem nú er fyrir hendi þeim í óhag hverfi. Þetta er auðvitað til umhugsunar. Vissulega var það eitt af sjónarmiðunum að reyna að hafa dísilolíuna heldur ódýrari en bensínið. Það var eitt af meginsjónarmiðunum í þessu.

Hv. þm. spurði um flokk 8705 í viðauka I við tollalög. Þetta munu vera kranar og önnur slík tæki sem vinna mjög staðbundið. Þetta eru tilteknar vinnuvélar sem sagt. Ekki get ég nú fullyrt hvort götusópar heyra þarna undir en sjálfsagt er einfalt að rannsaka það. (Gripið fram í: En snjóplógar?)

Varðandi þá sem væru nýbúnir að fjárfesta --- hv. þm. spurði hvort unnt væri að koma eitthvað til móts við þá --- þá er ég nú ekki á því að þetta verði sérstakt vandamál vegna þess að breytingin í þessu dæmi fyrir flest fólk kemur ekki þannig fram að menn verði fyrir neinu sérstöku höggi við upptöku þessa nýja kerfis. En það er sjálfsagt að athuga það. Þetta er eitt af því sem nefndin þarf bara að athuga, þ.e. hvort þarna verði einhver sérstök aðlögunarvandamál.

Varðandi síðan það sem nokkrir þingmenn hafa nefnt, að þungir bílar geti lent í erfiðleikum annaðhvort að vetri til eða í vorleysingum á malarvegum þar sem eru þungatakmarkanir og eytt meiri olíu en annars, upp í 80--90 lítra á hundraðið, þá á ég mjög erfitt með að sjá að hægt sé að leysa það í gegnum þetta kerfi. Það er, eins og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson benti á, auðveldara að benda á slík vandamál en koma með lausnir á þeim. En sjálfsagt er að hugleiða hvernig unnt er að hugsa fyrir vandamáli af þessu tagi. Vissulega er það alveg rétt sem hann benti á að ekki er eins farið með gröfu sem sjálfstætt tæki og gröfu sem hluta vörubíls. Það sama er með snjóplóginn og svo vörubíl með tönn sem gerir sama gagn og snjóplógurinn. Þarna eru bara vandamál sem við getum kannski ekki í fljótu bragði séð út yfir í þessu kerfi. En þannig er þetta náttúrlega víðar og jafnvel í kerfinu í dag.

Ég vil bara vekja athygli á því og segja að við megum ekki láta minni háttar mál af þessu tagi koma í veg fyrir að meiri háttar mál, sem er þessi lagabreyting, nái fram að ganga. Við verðum þá að reyna að finna einhver úrræði til þess að glíma við slíka þætti.

Varðandi spurningar hv. þm. Kristjáns Möllers þá er gert ráð fyrir því að olíugjaldið myndi gjaldstofn fyrir virðisaukaskatt alveg eins og olían gerir í dag. Virðisaukaskatturinn mundi leggjast ofan á þetta í heild sinni. Þetta er ný tekjuöflun, þ.e. fyrir þá sem ekki geta nýtt sér þennan virðisaukaskatt sem innskatt. Einstaklingar sem ekki eru með rekstur munu því borga þennan skatt að fullu. Við höfum hins vegar gert ráð fyrir því að þessir peningar gangi í rauninni til millifærslu til þess að bæta Vegagerðinni upp minni tekjur, eins og fram kemur í lokagreinum frv. þar sem gert er ráð fyrir því að sérstaka vörugjaldið hækki en hið almenna lækki. Það er nokkurn veginn sama fjárhæðin sem um er að tefla þar í 25. gr. í frv. Þar er verið að breyta lögunum um vörugjald af ökutækjum og eldsneyti, eins og ég rakti í framsögu minni, og skýrir það að frv. heitir frv. til laga um olíugjald og kílómetragjald o.fl. Þetta er það fleira.

Hv. þm. Kristján Möller spurði hvernig staða þessara mála væri í Danmörku. Ég held að þeir séu með endurgreiðslukerfi í Danmörku. Þeir eru með olíugjald. Þeir eru ekki með litun, ekki enn þá, en hafa eftir því sem ég best veit mjög verið að hugleiða að fara yfir í litunarkerfið og treysti ég því þá að þeir geri það ekki ef litunarefnið er talið vera krabbameinsvaldandi, eins og hv. þm. velti fyrir sér hvort verið gæti. Ég þekki það auðvitað ekki út í hörgul. En ég tel af og frá að nágrannaþjóðir okkar séu með þannig hættuleg efni á ferðinni í þessu máli.

Varðandi refsiákvæðin sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson vék að þá eru þau nánast og held ég nákvæmlega þau sömu og í gildandi lögum um fjáröflun til vegagerðar og eiga sér fyrirmynd og fordæmi m.a. í lögunum um virðisaukaskatt þannig að ef víkja á sérstaklega að þeim þá held ég að það yrði nú að gera það með heildstæðum hætti í mörgum lögum samtímis.

Virðulegi forseti. Eins og ég gat um er búið að tala um þessi mál í mjög langan tíma. Það var talað um þau þegar ég vann í fjmrn. sem aðstoðarmaður ráðherra fyrir 20 árum og gerðar hafa verið ítrekaðar tilraunir og atrennur að því að reyna að koma þessum málum hér í gegn sennilega alveg frá árinu 1992 með framlagningu frumvarpa. Hér voru einu sinni meira að segja samþykkt lög um olíugjald sem síðan komu aldrei til framkvæmda vegna þess að þau voru afturkölluð, en í þeim lögum var gert ráð fyrir endurgreiðsluaðferð til að undanþiggja tiltekna aðila gjaldskyldu en ekki litun eins og nú er gert ráð fyrir. Það hefur margt breyst. Tækni í sambandi við litun er miklu einfaldari og ódýrari en áður var og á að vera lítið mál miðað við reynslu annarra þjóða að koma henni við hér á landi.

Þess vegna segi ég að einhverjir hnökrar kunna að vera á þessu frv. sem vonandi verður að lögum fyrir vorið. En við höfum tíma til þess að sníða þá af. Það gerist þó að sjálfsögðu ekki ef við bara gefum þetta mál frá okkur, sem flestir viðurkenna að er þjóðþrifamál og hagsmunamál fyrir landsmenn almennt talað þó einstakir aðilar kunni að fara verr út úr því en núverandi kerfi.

Þess vegna segi ég við þingheim: Við skulum reyna að klára þetta mál núna. Mönnum okkur upp í að ljúka því og látum ekki um okkur spyrjast að verða enn einu sinni að hrökkva til baka með það sem flestir viðurkenna að er hið besta mál.