Reynslulausn fanga

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 13:34:26 (6131)

2004-04-06 13:34:26# 130. lþ. 95.91 fundur 461#B reynslulausn fanga# (aths. um störf þingsins), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[13:34]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég tók þetta mál upp á ríkisstjórnarfundi í morgun og veit ríkisstjórnin nauðsyn þess að brugðist verði við þeirri stöðu sem upp er komin vegna þess að ríkisstjórnin er einhuga um að gloppa sé í löggjöfinni hvað þetta varðar. Eins og hv. þm. rakti á það rætur að rekja til túlkunar á mannréttindasáttmála Evrópu þannig að hér er um mjög viðkvæmt mál að ræða. Mér er kunnugt um að hv. þm. er mjög upptekinn af mannréttindum og telur m.a. að núverandi dómsmrh. hafi gengið of langt til þess að skerða mannréttindi manna. Það er vandratað, meðalhófið í þessu.

Við lögðum þó ráðin á það í ríkisstjórninni í morgun að hugað verði að breytingum á löggjöfinni til að þessi gloppa verði ekki lengur fyrir hendi og ég hef þegar falið sérfræðingum að hefja störf við smíði þeirra texta sem þarf til að unnt verði að bregðast við í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar í morgun.