Reynslulausn fanga

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 13:35:35 (6132)

2004-04-06 13:35:35# 130. lþ. 95.91 fundur 461#B reynslulausn fanga# (aths. um störf þingsins), JBjart
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[13:35]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Umboðsmaður Alþingis tók í áliti sínu árið 1994 afstöðu gegn því að stjórnvöld, þ.e. Fangelsismálastofnun, tækju afstöðu til rofa á reynslulausn og taldi --- og ég tel að hann hafi talið það réttilega --- að það væri ekki í verkahring Fangelsismálastofnunar að kveða á um sekt eða sakleysi. Meðal annars í tilefni af þessu varð breyting á almennu hegningarlögunum 1999 og þessi framkvæmd færð til dómstólanna. Hugsunin var sú að með hraðari dómstólameðferð væru tryggð nægilega skjót og hröð viðbrögð þegar slík mál kæmu upp. Mér þykir einsýnt að þessu þurfi að breyta, ekki þó að færa framkvæmdina aftur til Fangelsismálastofnunar eins og var, heldur þurfi að breyta ákvæðinu í hegningarlögunum þannig að þegar ekki þykja málsástæður fyrir kröfu um gæsluvarðhald þegar fyrir liggur játning í alvarlegu broti geti sakborningur ekki bara gengið út, heldur þurfi lögreglan að hafa viðbótarúrræði. Hún þarf að geta krafist þess sérstaklega þegar um er ræða skýlaus brot að maður sé þá settur inn á grundvelli rofa á reynslulausninni.

Ég tel að Alþingi þurfi að leggjast yfir þetta í ljósi atburða og atvika þessa máls sem er jú tilefni umræðunnar, bæði yfir löggjöfina og framkvæmdina á reynslulausninni. Ég hef þegar óskað eftir sérstökum fundi í allshn. til að fjalla bæði um framkvæmdina og löggjöfina um reynslulausn. Ég vænti þess að við því verði orðið og að nefndin taki þetta til umfjöllunar á fundi sínum.