Reynslulausn fanga

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 13:37:22 (6133)

2004-04-06 13:37:22# 130. lþ. 95.91 fundur 461#B reynslulausn fanga# (aths. um störf þingsins), ÁÓÁ
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[13:37]

Ágúst Ólafur Ágústsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna svörum hæstv. dómsmrh. Ég tel að þetta hafi verið afskaplega jákvæð viðbrögð af hans hálfu. Ég vil líka taka fram að það er rétt hjá hæstv. dómsmrh. að við verðum að fara mjög varlega þegar kemur að mannréttindum og hugsanlegum brotum á þeim og mun ég seint þreytast á að brýna það fyrir honum. Þetta mál snýst samt ekki um það.

Málið snýst um galla á lögunum og þegar svona alvarlegur galli á lögunum kemur í ljós skiptir miklu máli að brugðist sé bæði hratt og rétt við. Borgarar landsins verða að geta búið við öryggi og skynsamlegar reglur varðandi reynslulausnir á dæmdum föngum. Það mun því ekki standa á Samf. að stuðla að auknu réttaröryggi í landinu. Úrræði eins og reynslulausn er skynsamleg leið og hana ber að nota en það er hins vegar umhugsunarvert að dæmdir fangar fá nánast sjálfkrafa reynslulausn frá Fangelsismálastofnun burt séð frá eðli glæpsins eða fanganum. Hins vegar er það þó fagnaðarefni að náðst hefur sátt um að skrúfa fyrir þennan galla á almennum hegningarlögum sem hér um ræðir. Ég hlakka til þeirrar vinnu hér á þingi og vonandi getur hún hafist sem fyrst.