Starfsumhverfi dagmæðra

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 14:30:37 (6257)

2004-04-14 14:30:37# 130. lþ. 96.5 fundur 731. mál: #A starfsumhverfi dagmæðra# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[14:30]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir greinargóð og ágæt svör og ætla að beina þeirri ósk til þess starfsfólks sem hann er að skipa og mun taka á þessu máli og útfæra tillöguna, að taka sérstakt tillit einmitt til þess sem hv. þm. Jón Gunnarsson kom inn á að varpa þessu ekki beint í fangið á sveitarfélögunum, heldur verði ríkið að koma myndarlega að málinu til að koma í veg fyrir annars vegar að hækkunin bitni á foreldrunum sem er sá hópur í samfélaginu, unga barnafólkið, sem hvað þyngstar byrðar ber og má minnst við auknum álögum og er frekar í umræðunni að reyna að létta álögurnar á þann hóp en að þyngja hann með þessum hætti. Um leið vil ég lýsa efasemdum mínum um að þörf sé á þessum breytingum. Ég hef ekki séð nein eða heyrt nein rök fyrir því að fimm börn hjá reyndri dagmóður sé of mikið og þeim þurfi að fækka niður í fjögur til að auka gæði þjónustunnar, heldur miklu frekar að taka inn í breytingarnar starfsaldursmat og hæfismat viðkomandi dagmóður og gera þeim sem besta starfsaldurinn og reynsluna hafa og mesta hæfni hafa til að gæta barnanna frekar kleift að taka sjötta barnið heldur en að skera þau niður í fjögur. Ég hef ekki séð nein rök fyrir þessari fækkun, miklu frekar ætti að taka tillit til viðkomandi dagmóður og hvernig staða hennar er heldur en að skera flatt niður um eitt barn úr fimm í fjögur, því óneitanlega læðist að manni sá uggur að það verði til þess að annars vegar muni álögurnar og byrðarnar á unga barnafólkið aukast og hins vegar verði því varpað í fangið á sveitarfélögunum að mæta því sem á milli ber. Það er ósanngjarnt og óréttlátt sérstaklega í ljósi þess hvernig ríkisvaldið hefur komið fram við sveitarfélögin á liðnum árum með því að svæla þau í þrot.