Aldurstengd örorkuuppbót

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 19:10:51 (6334)

2004-04-14 19:10:51# 130. lþ. 96.17 fundur 837. mál: #A aldurstengd örorkuuppbót# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[19:10]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég endurtek það að samkvæmt markmiðum sem sett voru í greinargerð frv. sem samþykkt var á haustþingi var ætlunin að endurmeta og meta reynsluna af aldurstengdu örorkuuppbótinni á miðju ári. Þá er meiningin að fara yfir það mál í heild sinni og mun þá verða farið yfir hvort rétt sé að taka upp aldurstengdar örorkubætur til 67 ára og eldri. Um það eru skiptar skoðanir og ég vil ekki gefa neinar yfirlýsingar um það á þessu stigi hvernig niðurstaðan verður. Við eigum eftir að láta þessa athugun fara fram og við viljum athuga þetta mál í heild sinni. Ég hef komið þeim orðum til Öryrkjabandalagsins þó ekkert hafi farið bréflega á milli okkar um það. En það er ætlun okkar að fara yfir þetta mál og ásetningur eins og rætt var um og sett markmið um.

Svo er það spurningin um hvers vegna fjölgi svo hratt í þessum hópi. Það er auðvitað mál sem þyrfti að skoða þó að það sé hliðargrein af þessu. Það er margslungið og ástæða er til þess að fara yfir það.