Lax- og silungsveiði

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 15:25:39 (6420)

2004-04-15 15:25:39# 130. lþ. 97.3 fundur 850. mál: #A lax- og silungsveiði# (Fiskræktarsjóður) frv., JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[15:25]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Það er nýmæli sem verið að leggja til varðandi gjald á orkuframleiðendur í landinu með þessu frv. til laga um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á er frv. flutt í framhaldi af því að orkuvinnslan er orðin samkeppnisatvinnurekstur og þess vegna sé tilhlýðilegt að leggja þetta gjald á. Gjald hefur áður verið innheimt í Fiskræktarsjóð af tekjum veiðiréttareigenda, en nú er gert ráð fyrir að allir sem virkja vatn og vatnsföll greiði í sjóðinn.

Mér finnst reyndar að upptaka á sértæku auðlindagjaldi eins og þarna er lagt til sé stefnumarkandi ákvörðun sem þurfi að skoðast í víðu samhengi. Ég virði áhuga og sjónarmið ráðherrans varðandi það að efla vöktun og rannsóknir á lífríki vatna og vatnasvæða og hvernig megi gera það bæði að öflugri og enn betri tekjulind og einnig varðveita og styrkja lífríkið. Ég virði það sjónarmið, en þessa nýju tegund af auðlindagjaldi, þessa nýbreytni, tel ég að þurfi svolítið stærri umræðu en að leggja hana bara fram með litlu frv., virðulegi formaður fjárln., Magnús Stefánsson, þó okkur þyki gott að fá peninga í kassann. Það er spurning hvort það ætti ekki að vera almenn skattheimta frekar en sértæk skattheimta. Ég velti því bara upp.

Það sem ég vil líka inna hæstv. ráðherra eftir varðar starfsemi Fiskræktarsjóðs: Hvernig hefur hann starfað og hvernig er honum ætlað að starfa áfram? Það er gert ráð fyrir að honum sé heimilt að veita lán og styrki til framkvæmda er lúta að fiskirækt í ám og vötnum í samræmi við gildandi lána- og úthlutunarreglur.

Ég velti fyrir mér lánshlutverki sjóðsins, að við séum komin með sjóð sem eigi að stunda lánastarfsemi og rekstur sem slíkan og vil spyrja hæstv. ráðherra hvort sjóðurinn hafi starfað á þeim grunni hingað til þó svo mér skiljist að það hafi verið lagaheimild til þess, hvort hann hafi verið með almenna útlánastarfsemi. Hver eru heildarútlán sjóðsins nú? Hvernig starfar sjóðurinn sem lánastofnun?

Ég tel mjög umhugsunarvert að stofna til sjóða eins og Fiskræktarsjóðs og annarra slíkra sjóða sem stunda lánastarfsemi. Það er annað að þeir stundi ákveðnar styrkveitingar til ákveðinna verka samkvæmt þeim reglum sem sjóðurinn setur sér en mér finnst mjög sértækt ef sjóður sem þessi getur farið að stunda lánastarfsemi. Ég bið því hæstv. ráðherra að upplýsa hvernig sjóðurinn hefur starfað sem lánastofnun.

[15:30]

Einnig vil ég inna hæstv. ráðherra eftir því hvernig þetta frv. í raun kemur fram. Í ákvæði til bráðabirgða er getið um að þrátt fyrir ákvæði 100. gr. sé sala á raforku samkvæmt samningum um stórnotendur, sem gerðir voru fyrir 18. júní 1998, undanþegin gjaldskyldu út gildistíma samninganna. Ég vil fá að heyra hvaða stórnotendur þetta eru. Hver er sá samningstími sem um þá gildir?

Ég vil fá upplýst, herra forseti, til hvaða aðila er höfðað í ákvæði til bráðabirgða þar sem sagt er að sala á raforku samkvæmt samningum við stórnotendur, sem gerðir voru fyrir 18. júní 1998, séu undanþegnir gjaldskyldu út samningstímann, gildandi samningstíma. Hvaða fyrirtæki er hér um að ræða? Hvaða samninga er hér um að ræða og hvenær renna þeir út?

Samkvæmt skilningi mínum á frv. verður raforkusala til stórnotenda, þótt þeir samningar hafi verið gerðir eftir 1998, ekki virk fyrr en þessir samningar eru útrunnir. Í frv. segir um þetta atriði í athugasemdum, með leyfi forseta:

,,Önnur breyting sem gerð er með ákvæðinu felst í því að ekki einvörðungu sérsamningar til nýrra stórnotenda, sem gerðir hafa verið eftir gildistöku laga nr. 50/1998, falla undir ákvæðið heldur allir slíkir orkusölusamningar. Verður ekki séð að það fái staðist 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. stjórnarskipunarlaga, nr. 97/1995, að vinnslufyrirtæki séu ekki öll jöfn fyrir lögum og samræmis ekki gætt við skattlagningu á sölu á raforku.``

Þetta er mjög liðugur texti og lipur en ég skil hann þannig að þrátt fyrir að lögin eigi bara að taka til þeirra fyrirtækja sem hafa gert orkusölusamninga eftir 1998 muni stórnotendur þó falla undir hið fyrra ákvæði vegna þess að ekki má mismuna þeim. Lagaákvæðið verður þá ekki virkt fyrr en allir þeir samningar eru útrunnir til að jafnræðis sé gætt. Enda segir í umsögn fjmrn., með leyfi forseta:

,,Gert er ráð fyrir að breiðari tekjustofn geti skilað sjóðnum aukalega 11 millj. kr. tekjum árlega en þó ekki fyrr en samningar sem voru gerðir fyrir 1998 renna út eða þeim er sagt upp.``

Ég ítreka spurningar mínar til hæstv. ráðherra: Hvaða orkusölusamningar eru það sem gerðir voru 1998 og hér er verið að höfða til? Hvenær renna þeir út? Í öðru lagi: Hver er í raun staða annarra orkusamninga við stórnotendur sem eru gerðir eftir 1998 og ákvæðið ætti að taka til en því frestað vegna ákvæða um jafnrétti til atvinnu?

Ég vildi líka spyrja um annað í framhaldinu þótt það sé ótengt þessu máli, annað sem lýtur að skattlagningu veiðihlunninda. Áður hefur komið til umræðu í þinginu það misrétti sem felst í skattlagningu veiðihlunninda á þann veg að þeir sem búa á bújörðum, þar sem veiðihlunnindin eru hluti af rekstrartekjum viðkomandi bús, eru skattlagðir eins og um rekstrartekjur sé að ræða, með 38--39% skattskyldu, en ef eigandinn á jörðinni býr ekki á henni og þetta flokkast undir eignatekjur en ekki rekstrartekjur þá er skatturinn aðeins 10%, sem um eignatekjur væri að ræða.

Þetta er gríðarleg mismunun og mjög ósanngjörn. Hún ætti frekar að vera á hinn veginn ef eitthvað væri, að skattleggja frekar þá sem ekki búa í viðkomandi héraði. Eyðijörð sem getur verið í eigu manns, einstaklings eða fyrirtækis í Reykjavík, t.d. í Húnavatnssýslu, borgar bara 10% skatt af veiðihlunnindunum en bóndinn sem býr á jörðinni við hliðina, þar sem veiðitekjurnar eru hluti af rekstrartekjum, borgar nærri 40% í skatt.

Við höfum áður rætt um þetta mál á þinginu. Flestir sem um það hafa rætt hafa tekið undir að hér væri um gríðarlegt óréttlæti að ræða í skattheimtu, hróplegt óréttlæti. Menn hafa talað um að brýnt væri að taka á þessu en ekkert hefur gerst. Ég vil því inna hæstv. landbrh. eftir þessu, þótt þetta heyri að vísu undir fjmrh. sem slíkan sem skattamál. Engu að síður er þetta hluti af atvinnukjörum bænda og þeirra sem búa á jörðum með veiðihlunnindi. Þetta er hluti af atvinnukjörum þeirra og óréttmætt að ekki gildi jafnræði í skattheimtunni.

Frv. þetta kemur til landbn. til umfjöllunar þar sem ég á sæti. Þá gefst tækifæri til að forvitnast frekar um þetta en ég ítreka spurningar mínar, þ.e. um hlutverk Fiskræktarsjóðs í lánastarfsemi og þær reglur sem hann hefur þá unnið eftir, ef það hefur verið gert upp. Ég dreg í efa að rétt sé að þessi sjóður eigi að byggjast upp sem lánasjóður og tel að a.m.k. þurfi að ræða sérstaklega hvernig hann hefur verið starfræktur hingað til.

Í öðru lagi spurði ég hvaða orkusölusamningar væru í gildi sem voru gerðir fyrir 1998 og hvenær þeir renni út þannig að þetta ákvæði laganna um skatta á orkusölu verði að raunveruleika.

Í þriðja lagi spurði ég hver væri raunstaða skattlagningar á öðrum orkusölusamningum og orkusölufyrirtækjum sem gera samninga eftir 1998 og varðandi þessa skattheimtu.