Lax- og silungsveiði

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 15:56:30 (6423)

2004-04-15 15:56:30# 130. lþ. 97.3 fundur 850. mál: #A lax- og silungsveiði# (Fiskræktarsjóður) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[15:56]

Pétur H. Blöndal:

Frú forseti. Við ræðum frv. til laga um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum. Af því tilefni kynni maður að halda að við værum að ræða hér um lax- og silungsveiði en svo er ekki. Við erum að ræða um skattalög, frú forseti. Við erum að ræða um skattalög og eðli máls samkvæmt ætti málið að heyra undir fjmrh. og vera vísað til hv. efh.- og viðskn. þar sem við ræðum um skattalög.

Í fyrsta lagi, svo ég fari í gegnum það, er til einhver sjóður sem heitir Fiskræktarsjóður og hann hefur hingað til átt að efla fiskrækt og fiskeldi. Það skal hann ekki gera lengur, nú á hann að efla fiskrækt og veiði og bæta veiðiaðstöðu, þ.e. væntanlega að byggja veiðihús fyrir ríka veiðimenn sem eru að veiða lax. Síðan er bætt við að ákvörðun veiðimálanefndar, sem er ákveðin nefnd sem fer með stjórn þessa ágæta Fiskræktarsjóðs, heitir núna stjórnvaldsákvörðun. Verið er að gera stjórn Fiskræktarsjóðs, þ.e. veiðimálanefnd, að stjórnvaldi og þá væntanlega Fiskræktarsjóð að einhvers konar opinberri stofnun eða einhverju því um líku án þess að það sé tekið sérstaklega fram. Þetta er allt til athugunar og menn þurfa að velta því fyrir sér.

En það sem maður hefur kannski mestan áhuga á er það sem kemur fram um breytingar á 99. gr. þar sem jarðeigandi skal greiða 2% gjald af hreinum tekjum af veiði í vatni á landi sínu og í netlögnum í sjó og stöðuvötnum. Hann á sem sagt að greiða 2% gjald af hreinum tekjum. Og nú er spurning hvað eru hreinar tekjur jarðeiganda af slíkri veiði? Ef hann borðar silunginn sjálfur, líta menn á það sem hlunnindi sem þyrfti að meta eða er enginn arður af því? Ef hann aftur á móti selur nágranna sínum sama fisk og sá borðar hann þá er væntanlega kominn tekjustofn sem þarf að skattleggja.

Það sem er athyglisverðast í þessu öllu saman er að skatturinn sem verið er að leggja á, skatturinn á bændur, jarðeigendur og þá sem selja veiðirétt, og á vatnsaflsstöðvar, rennur til þessa Fiskræktarsjóðs sem er þá eins konar opinber stofnun en samt ekki formlega, og það er stjórn þessa sjóðs sem leggur skattinn á bændur, þessi 2%, og innheimtir hann. Ég tel, frú forseti, að við þurfum þá að líta á stjórnarskrána vegna þess að í 40. gr. hennar stendur:

,,Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum.``

Og enn fremur:

,,Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.``

[16:00]

Fiskræktarsjóður --- og nú beini ég orðum mínum til hæstv. ráðherra ef hann hefði tíma til að hlýða á mál mitt --- innheimtir skatt af bændum. (Landbrh.: Í þeirra þágu. ) Ekki allra, bara sumra. Ef Fiskræktarsjóður er ígildi ríkisins má ekki greiða úr honum nema með fjárlögum. Það er ekki gert ráð fyrir því. Ef hann er hins vegar ekki ígildi ríkisins, og ekki er hann sveitarfélag, er komin dálítið undarleg staða. Þá er verið að skylda ákveðna borgara landsins til þess að greiða skatt til einhverra annarra borgara, einkaaðila væntanlega, og ég held að það standist engan veginn. Það er ekki hægt að skylda t.d. ráðherrann til að borga mér skatt með lögum, það væri mjög undarlegt: 10% af tekjum, takk. Ég held því að menn þurfi að skoða stjórnarskrána í þessu samhengi vegna þess að hún er mjög ákveðin varðandi það hvernig má leggja á skatt og hvernig það eigi að gerast.

Svo er dálítið merkilegt að skattur er lagður á öll vinnslufyrirtæki sem nota vatnsorku og hann á að renna til fiskræktar og veiðiaðstöðu. Hvaða samhengi er þar á milli, frú forseti? Hvaða samhengi er á milli þess að nýta vatnsafl, sem er fallorka vatnsins, og þess að það sé einhver fiskur í einhverju allt öðru vatni, t.d. í stöðuvatni? Ég efast um að það sé ein einasta branda í Kárahnjúkavirkjun og þeim vatnsföllum sem verið er að nýta þar, frú forseti. Ég hugsa að það sé enginn fiskur í þeim vötnum sem verið er að virkja. Hvað kemur það eiginlega þeirri virkjun við að vera að veita peningum til fiskræktar og veiðiaðstöðu, einhvers íbúðarhúsnæðis handa veiðimönnum? Ég held að menn séu komnir út á mjög hála braut í þessu öllu saman.

Svo velta menn fyrir sér: Hvernig er samkeppnisstaða milli vatnsaflsvirkjunar sem nýtir fallorku vatnsins og annarrar raforkuframleiðslu sem notar gufuorku? Af hverju er það ekki skattlagt líka? Það er líka vatn og einhvern tíma lifir fiskur í því vatni þegar því hefur rignt niður í sjóinn. Ég sé eiginlega ekki mikla glóru í þessu máli öllu saman nema menn hafi fundið einhvern sem lá vel við höggi, þ.e. vatnsorkuverin.

Ég hef alltaf haft mikinn ímugust á þessum lögum vegna þess að kafli þeirra um Fiskræktarsjóð og styrkveitingar til fiskræktar eru skattalög. Það á að vera á hreinu hvað eru skattalög og hvað eru ekki skattalög og það á ekki að fela það í lögum sem heita lög um lax- og silungsveiði, um eitthvað allt annað.

Ég heyrði að vísa ætti frv. til landbn. Ég teldi eðlilegra að vísa því til hv. efh.- og viðskn. sem skattalögum, sérstaklega kafla frv. sem fjallar um lax- og silungsveiði sem er skattalagakafli. Ég mundi því vilja að hv. þm. skoðuðu það að vísa frv. til hv. efh.- og viðskn., ef ekki, að hv. landbn. leiti þá sérstaklega álits þeirrar ágætu nefndar á þessu skattalagafrv.