Lax- og silungsveiði

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 16:14:36 (6427)

2004-04-15 16:14:36# 130. lþ. 97.3 fundur 850. mál: #A lax- og silungsveiði# (Fiskræktarsjóður) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[16:14]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get verið sáttur við að hv. þm. Pétur H. Blöndal tali með þessum hætti. En að hv. þm. Jóhann Ársælsson skuli tala með þessum hætti finnst mér mjög óeðlilegt, því allir réttsýnir menn sjá að þetta er ekki skattur. Þeir sem nýta vatnsorkuna og ganga í auðlindirnar hafa haft mikil áhrif á náttúruna. Þess vegna er þetta ekkert öðruvísi hér en í Noregi eða Svíþjóð eða mörgum öðrum löndum að þeir aðilar sem hafa fengið til þess leyfi þings og þjóðar að nýta þessar orkulindir gjaldi einnig vísindunum sitt, Fiskræktarsjóði í þessu tilfelli, 3 prómill eins og lagt er til. Síðan er sjálfsagður hlutur að eigendur ánna og vatnanna sem sækja þekkingu oft til þessara vísindamanna og eiga aðgang að sjóðnum og koma að stjórn hans gjaldi einnig sjóðnum.

Ég vil því andmæla því að hér sé um skatt að ræða. Hér er um sjálfsagt gjald af nýtingu vatnsorkunnar í landinu að ræða. Það er sjálfsagður hlutur að stórnotendur og allir notendur sem hafa virkjað þessa orku, og í mörgum tilfellum haft mikil áhrif á náttúruna, styrki vísindastarfið í kringum þá dýrmætu auðlind sem í ám og vötnum býr.