Lax- og silungsveiði

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 16:19:57 (6430)

2004-04-15 16:19:57# 130. lþ. 97.3 fundur 850. mál: #A lax- og silungsveiði# (Fiskræktarsjóður) frv., MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[16:19]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Sá skattur sem menn eru að ræða um virðist hafa verið við lýði ansi lengi því í fylgiskjali með frv. koma fram tölur um tekjur til Fiskræktarsjóðs af þessum orkufyrirtækjum sem ná aftur til ársins 1993. Ég hefði haft gaman af að heyra það úr munni hæstv. ráðherra hvort hann hafi orðið var við mótmæli gegn skattinum fram til þessa frá þessum orkufyrirtækjum.

Hitt er svo annað mál að ég saknaði þess svolítið í svari hæstv. ráðherra að hann minntist ekkert á eina af spurningum mínum sem gekk út á það hvað orðið hefði um nefndina sem Alþingi fól ríkisstjórninni að mynda árið 1997 um endurreisn Þingvallaurriðans. Þar komum við m.a. inn á það að þar hefur raforkufyrirtæki valdið miklu tjóni á fiskstofni, hreinlega lokað Efra-Sogi. Þar var skellt niður virkjun á sínum tíma, árið 1959 ef ég man rétt, og hún hefur verið þar allar götur síðan og það fór mjög illa með urriðann í Efra-Sogi og í Þingvallavatni reyndar líka. Það væri mjög fróðlegt að heyra frá ráðherra hvar sú nefnd er stödd því að sjálfsögðu hlýtur hann að bera ábyrgð á því hvort sú nefnd hafi verið sett á laggirnar eða ekki sem ráðherra í ríkisstjórn Íslands.

Ef það er svo að sú nefnd hafi ekki verið sett á laggirnar, en núna eru liðin ein sjö ár frá því þessi þál. var samþykkt í þinginu, m.a. fyrir góð orð hæstv. ráðherra, held ég að það hljóti að vera mjög svo alvarlegt mál og sýni kannski á vissan hátt þann tvískinnung sem mér finnst oft einmitt gæta í málflutningi stjórnarflokkanna hvað varðar fiskvernd og fiskrækt í ám og vötnum á Íslandi.

Ég vil fá skýr svör við þessu. Það er löngu tímabært að einhver þingmaður rísi upp og spyrji að því hvað orðið hafi um nefndina sem skipa átti um Þingvallaurriðann og endurreisn hans.