Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 16:48:23 (6436)

2004-04-15 16:48:23# 130. lþ. 97.6 fundur 881. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# (Stofnsjóður, framtakssjóðir) frv. 92/2004, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[16:48]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Frú forseti. Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt og sjálfsagt að fara yfir öll þessi mál í meðförum þingsins og efh.- og viðskn. á þessu máli. Stofnað var til þessara framtakssjóða fyrir forgöngu efh.- og viðskn. á sínum tíma, ef ég man rétt. Ýmsir lýstu áhuga sínum á því að taka þátt í að nýta þá sjóði eða ávaxta þá. Ég hygg að það sé rétt að það hafi endað með því að aðilar í Vestmannaeyjum sem hafi ávaxtað fjórðung þeirra, á Austurlandi fjórðung, aðilar við Landsbanka Íslands á Akureyri fjórðung og síðan Eignarhaldsfélag Alþýðubankans.

Það sem hefur hins vegar gerst er að verulegur hluti af þessu fjármagni hefur tapast. Eftir standa að verðmæti, eins og kemur fram í umsögn fjmrn., 580 millj. kr. Það hefur orðið 40% rýrnun á þessum sjóðum.

Náttúrlega er alveg ljóst að eðli allra nýfjárfestinga og nýjunga í atvinnulífi gerir þær áhættusamar. Gert er ráð fyrir því að í stað þess að þessir fjármunir renni óskiptir í ríkissjóð þá komi þeir til með að styrkja stöðu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.

Um það segir m.a. í umsögn fjmrn.:

,,Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs, en lánsfjárafgangur ríkisins verður u.þ.b. 580 millj. kr. lægri á tilteknu árabili en verið hefði miðað við gildandi lög.``

Það þýðir einfaldlega að að óbreyttu mundu þessir fjármunir renna beint í ríkissjóð en ef þetta frv. verður samþykkt renna þeir til Nýsköpunarsjóðs með þeim hætti sem kemur fram í frv.