Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 16:50:36 (6437)

2004-04-15 16:50:36# 130. lþ. 97.6 fundur 881. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# (Stofnsjóður, framtakssjóðir) frv. 92/2004, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[16:50]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi það sem hæstv. ráðherra sagði síðast þá taldi ég mig skilja að þeir fjármunir sem þarna er talað um mundu rata á þann veg sem stendur í umsögn fjmrn. Ég átta mig hins vegar ekki á því hvernig litið var á þessar eignir. Það var gert ráð fyrir því að þessir fjármunir rynnu inn í ríkissjóð. Nú er það sem eftir stendur 580 millj. kr. og þær þá skráðar þannig en fjármunirnir sem töpuðust virðast hvergi skráðir sem tapað fé.

Ég tel að það hefði verið ástæða til að það kæmi fram. Hvað ef mistekst aftur og þessir fjármunir tapast? Verður þá sú fjárhæð, afgangsfjárhæðin, færð til gjalda hjá ríkissjóði? Ég skil ekki alveg bókhaldið í þessu en ætla ekki að teygja lopann um það. Í nefndinni komast menn örugglega að niðurstöðu um hvaða hugsun var í þessu frá upphafi. Það kemur sjálfsagt í ljós.