Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 17:24:08 (6441)

2004-04-15 17:24:08# 130. lþ. 97.10 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[17:24]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Björgvini Sigurðssyni fyrir þátttöku hans í umræðunni.

Ég vil fyrst segja, hæstv. forseti, að ég samsinni hv. þm. þegar kemur að umræðunni um verkefnatilflutning. Ég tel mikil tækifæri felast í þeim aðgerðum á næstu árum fyrir sveitarstjórnarstigið í landinu, og sem fyrrum bæjarfulltrúi hef ég óbilandi trú á því að fleiri, stærri og verðugri verkefni til handa sveitarfélögunum séu einmitt hvatinn að því að þau stækki, þau sameinist, þjónustan verði þar með veitt í mikilli nálægð við íbúana og batni sem því nemur.

Ég get hins vegar ekki tekið undir með hv. þm. þegar hann orðar það svo að ríkið hafi skilið sveitarfélögin eftir á köldum klaka, og vitnar þar m.a. til flutnings grunnskólans yfir til sveitarfélaganna. Það eru, svo ekki sé meira sagt, hæstv. forseti, mjög skiptar skoðanir meðal sveitarstjórnarmanna á því hvernig sá viðskilnaður var. Margir sveitarstjórnarmenn bæði nú og fyrrum, ég þeirra á meðal, telja að sá flutningur hafi þvert á móti gengið mjög vel, hafi verið farsæll fyrir sveitarstjórnarstigið, fyrir grunnskólann og þar með fólkið í landinu og tekjutilfærslan sem framkvæmd var við þann verkefnatilflutning hafi verið eðlileg. Við þurfum hins vegar að tryggja í framhaldinu nú að það verði svo áfram að sveitarfélögin fái þann hluta af skattakökunni sem þeim ber með tilliti til aukinna verkefna.