Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 17:26:13 (6442)

2004-04-15 17:26:13# 130. lþ. 97.10 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[17:26]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er fagnaðarefni að hæstv. ráðherra skuli taka undir þá sýn sem ég dró hér upp um verkefnaflutning frá ríki til sveitarfélaga á næstu árum og nefndi það að hvati stækkunar og sameiningar sveitarfélaga er að sjálfsögðu aukin verkefni og fjölgun málaflokka sem sveitarfélögin hafa með að gera. En því verður ekki í móti mælt, hvað sem hver segir, að það er staðreynd sem uppi er að í kjölfar verkefnaflutningsins á grunnskólanum yfir til sveitarfélaganna, þó svo að flutningurinn hafi tekist mjög vel eins og ég gat um áðan og orðið til þess að grunnskólinn gekk að mörgu leyti í endurnýjun lífdaga og hefur aldrei verið betri þannig að eftir er tekið víða, hafa sveitarfélögin átt í miklum erfiðleikum og mjög margir sveitarstjórnarmenn draga enga dul á að það sé vegna þeirrar miklu uppbyggingar sem beið á grunnskólastiginu eftir tilflutninginn. Margir hafa haldið því fram með sterkum rökum að á tímabilinu áður en grunnskólinn fór yfir til sveitarfélaganna hafi margt rekið á reiðanum og mikil uppbygging beðið sveitarfélaganna þegar þau fengu þetta verkefni inn á sitt borð og mikil vinna og fjárfrek beðið þeirra til að byggja upp og gera grunnskólann þannig úr garði að hann stæðist samjöfnuð við það besta sem við sjáum og viljum bera saman við. Í því ljósi er brýnt að leggja áherslu á að verkefnaflutningum fylgi alltaf fjármagn þannig að sveitarfélögin geti staðið vel og myndarlega að málum eins og þeim ber lagaleg skylda til að gera, en ekki þannig að hann þvingi þau út í enn þá erfiðari stöðu fjárhagslega.