Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 17:28:29 (6443)

2004-04-15 17:28:29# 130. lþ. 97.10 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[17:28]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að halda því einmitt til haga í umræðunni að Samband íslenskra sveitarfélaga hefur margreiknað það út og farið yfir það að tekjustofnar fylgdu með, og þeir samningar sem gerðir voru þegar grunnskólinn var færður yfir til sveitarfélaganna voru fullkomlega í takt við það verkefni sem verið var að flytja yfir.

Það er auðvitað ljóst að ekki eru öll sveitarfélög sammála um hversu ríkulega það var gert en þau hafa einnig tekið mjög misjafnlega á því að byggja upp grunnskóla sína. Og í sama ferli, þegar grunnskólinn var fluttur yfir, var auðvitað ráðist í einsetningu líka hjá mörgum sveitarfélögum og allt kallaði það á mismunandi lausnir hjá sveitarfélögunum sem menn voru í sjálfu sér misjafnlega í stakk búnir til að takast á við. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að þegar slíkur málaflokkur er fluttur yfir er ekkert status quo, hann heldur áfram að þróast og menn hafa nýjar hugmyndir og vilja gera betur. Það að rifja endalaust upp og tala um að tekjustofnar hafi ekki fylgt með þegar grunnskólinn var fluttur yfir stenst bara ekki. Þetta er orðinn þó nokkur tími og komin ágætisreynsla á rekstur grunnskólans hjá sveitarfélögunum og ég held að það hafi verið happaskref á sínum tíma. En Samband íslenskra sveitarfélaga hefur margstaðfest að miðað við það verkefni sem flutt var yfir fluttust tekjustofnar með.