Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 17:37:45 (6447)

2004-04-15 17:37:45# 130. lþ. 97.10 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, HHj
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[17:37]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Ég vil segja nokkur orð um þær brtt. sem hér liggja fyrir við sveitarstjórnarlög. Ég held að ég geti fullyrt að í kjördæmi mínu muni þetta eiga stuðning allra sveitarfélaga í öllum meginatriðum. Við umfjöllun í félmn. munum við fulltrúar Samf. fjalla með jákvæðum hætti um þær breytingar sem hér eru lagðar til enda virðast þær flestar horfa til framfara.

Einnig má taka undir það með hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni sem síðast talaði um hversu gifturíkt skref það var að flytja grunnskólann til sveitarfélaganna, hversu farsælt það hefur reynst. Við sjáum hversu gríðarleg uppbygging hefur átt sér stað í Reykjavík í grunnskólanum og hvernig hann hefur eflst og þroskast á stuttum tíma. Ætli framlög til málaflokksins á síðustu sjö árum hafi ekki liðlega tvöfaldast, ef ég man það rétt. Hér er jafnframt búið að bæta aðstöðu svo skiptir tugum þúsunda fermetra, búið að einsetja grunnskólann, lengja skóladaginn. Það á að bjóða upp á heitar máltíðir í öllum grunnskólunum og þannig getum við haldið áfram að telja þau mörgu framfaraverkefni sem fylgt hafa þeim tilflutningi yfir til sveitarfélaganna. Auðvitað á sá tilflutningur að vera okkur hvatning og sönnun þess að vert sé að fara með fleiri málasvið þangað yfir.

Það er hins vegar fremur leitt að heyra tóninn í stjórnarliðum gagnvart fjárhagsstöðu sveitarfélaganna í landinu. Þó að það sé út af fyrir sig rétt að flutningur grunnskólans hafi tekist vel og farsællega er engum blöðum um það að fletta að fjárhagur margra sveitarfélaga í landinu er ákaflega erfiður. Okkur sem eigum sæti í fjárln. og fundum á hverju hausti með sveitarfélögum um allt landið þurfum ekki að spyrja okkur að því tvisvar hvort raunverulegur vandi sé á ferðinni. Svo knýjandi eru þau mál og erfið staðan, m.a. í kjördæmi hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur, að hér hafa verið lögð á borð fyrir fjárln. upplýsingar um mikinn og aðkallandi fjárhagsvanda einstakra sveitarfélaga. Það er auðvitað eins og að berja höfðinu við steininn að standa í ræðustól og láta eins og ekki sé um neinn fjárhagslegan vanda hjá sveitarfélögunum að ræða og ekki þurfi að styrkja þann fjárhagsgrundvöll sem þau standa á. Það þarf sannarlega. Það er auðvitað ekki að tilefnislausu að á morgun skal efnt til sérstakrar utandagskrárumræðu um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga. Það er vegna þess að full þörf er á að taka það mál á dagskrá á hinu háa Alþingi.

Þá að þeim breytingum sem hér eru lagðar til. Í frv. eru lagðar til breytingar sem varða kjör nefndarmanna og eru kannski til þess ætlaðar að tryggja að sveitarstjórnir misnoti ekki þær heimildir sem gildandi lög veita meiri hluta þó að í sjálfu sér þekki ég ekki dæmi um að meiri hluti hafi misnotað sér þann mögulega rétt sinn í gildandi lögum að skipta að eigin geðþótta um fulltrúa minni hluta í einstökum nefndum. En allur er varinn góður og full ástæða til að taka af öll tvímæli um með hvaða hætti staðið er að því að skipta út mönnum í nefndum, hvenær þeir hafi heimild til þess o.s.frv.

Í því felst sömuleiðis framför að starfsmenn einstakra stofnana geti ekki á sama tíma setið í stjórnum þeirra. Það er eðlilegt í ljósi nútímasjónarmiða í stjórnsýslu og ákvarðanatöku að þannig hagsmunaárekstur geti ekki átt sér stað, nema þá að a.m.k. sé sérstaklega um það fjallað og veittar fyrir því sérstakar heimildir.

Eina af þeim breytingum sem hæstv. félmrh. leggur til tel ég þó ástæðu til að fara mjög vandlega yfir í félmn., þótt hún virðist eiga sér efnislegar forsendur. Það eru breytingar sem lúta að ábyrgðum sveitarfélaga. Það er a.m.k. engum blöðum um það að fletta að þar er verið að víkka út gildandi heimildir sveitarfélaganna til að gangast í ábyrgðir. Vissulega er til dæmi um það vestan af Snæfellsnesi, þar sem mörg sveitarfélög hugðust sameiginlega leggja í byggingu framhaldsskóla, að þar sáu menn annmarka á því að veita ábyrgðir til samfélagsverkefnis á borð við byggingu framhaldsskóla, að núgildandi lögum. Almennt séð tel ég þó að í gildandi lögum séu fremur of rúmar heimildir til sveitarfélaga til að ábyrgjast skuldbindingar stofnana og fyrirtækja en að þær séu of þröngar. Þótt auðvitað þurfi að skoða sérstaklega vel þessa tillögu og efnislegar forsendur fyrir henni þá vil ég a.m.k. leggja áherslu á að félmn. fari mjög varlega í umfjöllun um þetta einstaka atriði. Ég ítreka að færa þarf fram málefnaleg sjónarmið fyrir því að víkka þurfi heimildir með þessum hætti. Það hefur auðvitað reynst mörgum sveitarfélögum akkillesarhæll að gangast í ábyrgðir fyrir stofnanir og fyrirtæki sem þau hafa átt aðild að með einum eða öðrum hætti. Ég held þess vegna að menn þurfi að skoða vel fyrir hvað væri mögulega verið að opna.

Fyrst og fremst lúta þær breytingar sem hér eru lagðar til að því átaki sem fyrir höndum er í sameiningu sveitarfélaga. Þar mun hæstv. félmrh. eiga fullan stuðning okkar í Samf. Ég hygg raunar að ýmsir af þingmönnum okkar hefðu jafnvel viljað ganga skrefinu lengra í þessu efni. Við teljum það mjög aðkallandi að ná umtalsverðum áfanga í sameiningu sveitarfélaga. Fjöldi sveitarfélaga og smæð margra þeirra hefur í allt of langan tíma fengið að standa í veginum fyrir nauðsynlegum verkefnatilflutningi frá ríki til sveitarfélaga.

Við teljum að þær kosningar og sameiningartillögur sem farið verður í á næsta ári, og síðan aftur á þarnæsta ári í þeim tilfellum sem fara þarf í endurtekna atkvæðagreiðslu, hljóti í raun, af hálfu Alþingis og ríkisvaldsins, að vera síðasta lotan í þessum sameiningartilraunum. Leggja verður áherslu á að ef menn nái ekki, í almennum frjálsum kosningum og af fúsum og frjálsum vilja og sjálfsforræði sveitarfélaganna, verulegum áfanga í þetta skipti þá hljóti menn einfaldlega að skoða aðrar leiðir til þess að knýja fram sameiningu. Hins vegar er mjög mikilvægt að um hana takist sem víðtækust sátt.

Ég vil taka undir það með hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni, að full ástæða er til að skoða margar af þeim tillögum sem koma fram í skýrslu Sambands sunnlenskra sveitarfélaga um hvernig megi hvetja og örva á jákvæðan hátt til að sameina sveitarfélög þannig að heppnist sem best í þessu átaki. Það er vert að skoða þær sérstaklega vel.

Hæstv. forseti. Þær tillögur sem hæstv. félmrh. hefur mælt fyrir verða á næstu dögum teknar til umfjöllunar í félmn. Ég treysti því að þær muni þar hljóta þá rýni og vönduðu umfjöllun sem nauðsynlegt er. Ég legg hins vegar áherslu á að í þeirri vinnu munum við fulltrúar Samf. styðja sérstaklega viðleitni félmrh. til að ná áfanga sem máli skiptir í sameiningu sveitarfélaga, fækkun þeirra og eflingu sveitarstjórnarstigsins.