Tónlistarsjóður

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 18:57:14 (6461)

2004-04-15 18:57:14# 130. lþ. 97.9 fundur 910. mál: #A tónlistarsjóður# frv. 76/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[18:57]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst mikilvægt í þessari umræðu að hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir að hún muni beita sér fyrir því að fjárveitingar til sjóðsins muni aukast. Ég tel að það skipti ákaflega miklu máli, sérstaklega með tilliti til þess að hæstv. ríkisstjórn talar töluvert oft um að hagur þjóðarinnar sé að vænkast og þar með hagur ríkissjóðs. Ég vek eftirtekt á því að hæstv. ríkisstjórn hefur margsinnis sagt að svo mjög muni hagurinn vænkast á næstu árum að hægt verði að ráðast í skattalækkanir upp á tugi milljarða. Mér finnst því að það ætti nú ekki að vera ofverk hæstv. menntmrh. að sjá til þess að þegar á næstu fjárlögum verði framlögin a.m.k. tvöfölduð.

Ég vil hins vegar rifja það upp að samtök tónlistarmanna og þeirra sem eiga rétt á tónlist, rétthafanna, fóru nú heldur betur fram á meira en tvöföldun. Þau fóru fram á tíföldun framlaga. Þegar þetta mál kom fyrst til umræðu á hinu háa Alþingi var talað um að í þennan sjóð þyrfti að fá 200--300 millj. kr. Ég man ekki betur en þáv. menntmrh. sem nú stýrir dómsmálum landsins hafi ekki tekið illa í það. Ég man heldur ekki betur en að á sínum tíma hafi þáv. iðnrh., sem tókst á við þáv. menntmrh. um hvar ætti að vista þennan sjóð, tekið undir það. Mér finnst því heldur lítið í lagt ef hrinda á þessu fleyi úr vör einungis með þeim peningum sem þegar eru í málaflokknum.

Ég vek síðan eftirtekt á því, frú forseti, að í greinargerð er sagt að þessi eini fulltrúi sem kemur utan ráðuneytisins sé fulltrúi Samtóns. Samtónn eru samkvæmt greinargerðinni samtök allra rétthafa tónlistar í landinu. Ég hefði nú talið að fyrir utan þá hefði líka þurft fulltrúa starfandi tónlistarmanna til þess að koma að málinu.