Áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 19:24:19 (6470)

2004-04-15 19:24:19# 130. lþ. 97.11 fundur 873. mál: #A áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára# þál. 29/130, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[19:24]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra skuli hafa skilning á því að á borðum þingmanna séu fleiri tillögur sem beri kannski að líta á í tengslum við þessa jafnréttisáætlun og ítreka það að þáltill. um fórnarlamba- og vitnavernd gengur í raun og veru samhliða þeim ákvæðum sem Palermo-samþykktin gengur út á. Palermo-samþykktin er eitt af því sem kemur fram í þessari áætlun hér að eigi að fullgilda. Ég verð að segja að við höfum beðið eftir því með óþreyju, nokkrir þingmenn, að Íslendingar fullgildi þann samning. Ég fagna því að hér skuli það gert að einu af forgangsverkefnunum því að það skiptir okkur verulegu máli að við getum gengið hnarreist og keik fram í þessum málum sem lúta að einum af skelfilegustu glæpum sem hægt er að fremja, þ.e. sölu á fólki til kynlífsþrælkunar í flestum tilfellum. Angi af þessum glæpamálum teygir sig til Íslands. Það er ekki eins og að þessi mál komi okkur ekki við. Við verðum að skoða þau hér í okkar ranni af mikilli alvöru. Ef við getum gert það á einhvern hátt í tengslum við þessa jafnréttisáætlun tel ég það vera vel og treysti því að félmn. athugi þau mál í umfjöllun sinni.