Áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 20:01:20 (6480)

2004-04-15 20:01:20# 130. lþ. 97.11 fundur 873. mál: #A áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára# þál. 29/130, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[20:01]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni fyrir þátttöku hans í umræðunni.

Ég vil fyrst víkja að því sem hv. þm. nefndi og varðar 12. tölulið áætlunarinnar, þ.e. jafnréttisumsagnir stjórnarfrumvarpa, en til þess að gera samþættingu að viðtekinni starfsvenju er nauðsynlegt að spyrja ákveðinna spurninga þegar lög eru sett eða ákvarðanir teknar. Það verður, hæstv. forseti, verkefni forsrn. að semja gátlista sem hægt verður að hafa til hliðsjónar þegar lagt verður jafnréttismat á lagafrumvörp og aðrar opinberar stefnumarkandi reglur.

Þessu nátengt er svo það tilraunverkefni sem hv. þm. gerði að umtalsefni. Það verður á vegum félmrn., fjmrn. og iðn.- og viðskrn. Í því verkefni felst að þessi ráðuneyti munu skipa fulltrúa í starfshóp sem verður falið að veita jafnréttisumsögn um nokkur stjórnarfrumvörp sem unnin eru á vegum ráðuneytanna. Þetta er tilraunaverkefni, hæstv. forseti, og þessum starfshópi verður falið að kynna sér starf hliðstæðra nefnda á Norðurlöndunum.

Hvað varðar þau verkefni, hæstv. forseti, sem gerð er grein fyrir í þeirri skýrslu sem lýtur að árangri við framkvæmd þeirrar áætlunar sem nú er að renna úr gildi og hv. þm. gerði að umtalsefni þá skal ég viðurkenna að ég kann ekki að gera öllu gleggri grein fyrir framgangi þeirra verkefna en kemur fram í skýrslunni. Ef þar er eitthvað óljóst þá finnst mér liggja í hlutarins eðli að um það verði fjallað í hv. félmn.

En af því að minnst var á verkefnið Lifandi landbúnaður -- Gullið heima þá tek ég undir með hv. þm. varðandi það að þar er um að ræða verkefni sem að mörgu leyti hefur verið til fyrirmyndar. Það hefur vakið athygli um allt land. Af því tilefni var haldinn hátíðlegur dagur landsbyggðarinnar og fleira mætti nefna. En það starf er eftir því sem ég best veit, hæstv. forseti, í fullum gangi.