Áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 20:03:37 (6481)

2004-04-15 20:03:37# 130. lþ. 97.11 fundur 873. mál: #A áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára# þál. 29/130, DJ
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[20:03]

Dagný Jónsdóttir:

Frú forseti. Ég tel ástæðu til að fagna þeirri áætlun í jafnréttismálum sem hæstv. félmrh. leggur hér fram. Það er afar mikilvægt fyrir framgang málaflokksins að hið opinbera sýni gott fordæmi í verki.

Mig langar að víkja að nokkrum atriðum sem mér þykja skipta höfuðmáli í þessari jafnréttisumræðu. Í fyrsta lagi er það jafnrétti á vinnumarkaði. Í febrúar var gefin út skýrsla um efnahagsleg völd kvenna. Í þessari skýrslu kemur fram að konur hafa einungis 72% af launum karla fyrir jafnlangan vinnudag. Þetta er algjörlega óviðunandi og launamisréttið er stærsta jafnréttismál okkar tíma.

Sérstakt er að huga að því að hluti af skýringum á þessum launamun er t.d. hjónaband og barneignir. Ekki er nú uppbyggilegt veganesti fyrir ungar konur að það að stofna fjölskyldu muni hafa neikvæð áhrif á laun þeirra.

Í öðru lagi finnst mér athygli verð sú staðreynd að fáar konur sitja í opinberum úthlutunarnefndum sem veita fé til uppbyggingar íslensks atvinnulífs. Einnig fá konur lítinn hluta þess fjármagns sem veitt er úr opinberum sjóðum til styrktar atvinnuuppbyggingu. Til að mynda sýnir viðhorfskönnun að helmingur karla og 67% kvenna telja að konur hafi ekki jafngóðan aðgang að fjármagni til fyrirtækjareksturs og karlar.

Í þriðja lagi langar mig að minnast á aukna virkni kvenna í stjórnmálum en nefnd starfaði á vegum félmrn. sem átti að stuðla að auknum hlut kvenna í stjórnmálum. Þetta verkefni er ekki að finna í áætluninni. Þessi nefnd stóð m.a. fyrir könnun þar sem kom fram að tæplega 78% þjóðarinnar töldu að auka þyrfti hlut kvenna í stjórnmálum.

Í lokaorðum skýrslu nefndarinnar kemur fram að einn þeirra þátta sem skiptir höfuðmáli varðandi framgang kvenna í stjórnmálum sé pólitískur vilji, einkum innan stjórnmálaflokkanna. Þetta er alveg rétt. Flokkarnir verða að sýna ákveðið frumkvæði og get ég nefnt sem dæmi að Framsfl. er með jafnréttisáætlun þar sem kveðið er á um að hlutfall karla eða kvenna í nefndum og á framboðslistum sé aldrei undir 40%.

Hitt er annað mál og kannski atriði sem vegur þyngst en hefur oft gleymst í umræðunni en það er einmitt vilji kvennanna sjálfra til að taka þátt í stjórnmálum. Ég er þeirrar skoðunar að þar skipti mestu máli uppeldið sjálft. Það er mikilvægt að stúlkur setji aldrei kynferði sitt sem hindrun á leið þeirra að markmiðum. Ég var til að mynda um daginn á málþingi um stöðu kvenna á vegum JC-kvenna og það var eindóma álit okkar allra sem héldum þar framsögu að aldrei hefði hvarflað að okkur að við gætum ekki náð markmiðum okkar vegna þess að við værum konur.

Virðulegi forseti. Af nógu er að taka í þessari jafnréttis\-áætlun. Ég vona innilega að þær breyttu áherslur sem hæstv. félmrh. boðar hér þoki jafnréttismálum í rétta átt.