2004-04-16 10:45:50# 130. lþ. 98.95 fundur 477#B álit kærunefndar jafnréttismála um skipan hæstaréttardómara og viðbrögð dómsmálaráðherra# (umræður utan dagskrár), BJJ
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 130. lþ.

[10:45]

Birkir J. Jónsson:

Hæstv. forseti. Markmið jafnréttislaganna eru göfug og jafnréttislögin eru góð og okkur ber að halda áfram á þeirri braut að auka jafnrétti kynjanna. Umræðan um jafnréttið snýr ekki eingöngu að því að bæta hag kvenna, hún tekur einnig til þess að bæta hag þjóðfélagsins. Í nútímaþjóðfélagi er sjálfsagt að jafnrétti ríki í landinu og að konur jafnt sem karlar hafi sömu tækifærin.

Hæstv. forseti. Því miður er enn nokkuð langt í land. Við hljótum öll að vera sammála um að óskandi væri að ekki væri þörf fyrir sérstakar jafnréttisáætlanir eða jafnréttislög í landinu. Staðreyndirnar tala hins vegar sínu máli. Við þurfum að styðjast við jafnréttislög og jafnréttisáætlanir og fara eftir þeim. Jákvæð mismunun er mikilvægt verkfæri til þess að breyta því þjóðfélagi sem við lifum í í átt til þjóðfélags þar sem jafnrétti ríkir, þar sem konur og karlar hafa sömu tækifærin.