Einkamálalög og þjóðlendulög

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 12:21:28 (6517)

2004-04-16 12:21:28# 130. lþ. 98.17 fundur 872. mál: #A einkamálalög og þjóðlendulög# (gjafsókn) frv., BH
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 130. lþ.

[12:21]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Hæstv. forseti. Frv. sem við ræðum hér lætur í sjálfu sér ekki mikið yfir sér, er ekki margar blaðsíður. Hæstv. ráðherra hefur gert ágæta grein fyrir því um hvað það fjallar. Með því á að taka út heimild til gjafsóknar á grundvelli þess að úrlausn máls hafi verulega almenna þýðingu eða varði mjög atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjenda.

Ég hef ákveðnar áhyggjur af því, virðulegi forseti, að þarna geti verið, að því er virðist í sparnaðarskyni, farið inn á braut sem geti haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir ákveðinn hóp fólks og hindrað einstaklinga í að fara með mál fyrir dómstóla sem ella hefði verið mikilvægt að færu þangað.

Hæstv. dómsmrh. lýsti því yfir áðan að þessi breyting mundi ekki hafa neina breytingu í för með sér varðandi sifjamál. Ef það er rétt þá lýsi ég yfir ánægju minni með það. Ég hafði ekki síst áhyggjur af slíkum málum. Jafnvel þótt fólki verði ekki beinlínis fjárhagslega ofviða að fara í mál þá getur þetta samt sem áður verið réttlætismál. Þar erum við komin inn á aðrar brautir þar sem það er hreint og klárt réttlætismál að fá úrlausn slíkra mála, t.d. í sifjamálum. Í slíkum málum finnst mér að fjárhagsleg atriði, jafnvel þótt fólk fari ekki beinlínis á hausinn við málsóknina, eigi ekki að hindra fólk. Þannig hafði ég skilið þau ákvæði sem verið er að taka út úr lögum núna.

Samkvæmt ákveðnum lögum --- það er ekki bara hægt að fara fram á gjafsókn á grundvelli þeirra ákvæða sem hér á að breyta --- er líka ákveðin lögbundin gjafsókn. Það þarf náttúrlega að skoða breytinguna í samhengi við þau lög. Ég hef ekki haft svigrúm til að kynna mér ofan í kjölinn hvernig breytingarnar koma út fyrir slík mál. Mér varð fyrst hugsað til sifjamála og forsjármála. En svo sé ég í leiðbeiningum frá dóms- og kirkjumrn., þar sem fjallað er um almennar upplýsingar varðandi gjafsókn, að um er að ræða allnokkra málaflokka þar sem er um að ræða lögbundna gjafsókn. Það er þá tiltekið í öðrum lögum. Auðvitað þarf að skoða þessar breytingar í því samhengi.

Ég tel mikilvægt að tryggja að um slík mál verði þannig búið að þar verði ekki ýtt frá mikilvægum réttlætismálum. Ég er ekki sammála því sem kemur fram í greinargerð með frv., eins og sá texti hljómar, að skilyrðið sé það víðtækt að ekki sé forsvaranlegt að kosta málshöfðun eða málsvörn einstaklings af almannafé á grundvelli svo almenns ákvæðis. Auðvitað erum við með ákveðnar starfsreglur um þessi atriði. Það er náttúrlega gert ráð fyrir því að eftir þeim sé farið og gjafsóknarnefnd meti þau tilvik. Þannig er alveg hægt að setja um þetta reglur. Það hefur líka verið gert með reglugerð um starfshætti gjafsóknarnefndar og svo með almennum starfsreglum nefndarinnar. Það er einnig hægt að setja ákveðnar hömlur á þetta ákvæði og í því hefur ekki verið galopin ótvíræð heimild fólks til að fá gjafsókn.

En eins og ég segi vil ég ekki setja mig upp á móti þessu ákvæði án þess að skoða það nánar í samhengi við lög sem gera ráð fyrir lögbundinni gjafsókn. Ég tel mikilvægt að tryggt verði að engir hópar verði út undan ef um er að ræða mál sem verulega skiptir máli að fari fyrir dómstóla og miklir hagsmunir geta verið af því að fá skorið úr.

Ég verð líka að segja að ég er ekki alveg sátt við röksemdir fyrir því að þjóðlendumál séu tekin sérstaklega út úr. Ég er ekki alveg sannfærð um þörfina á því þótt um sé að ræða mál sem ríkið stendur fyrir. Ég velti því fyrir mér hvort þau mál hafi það mikla sérstöðu að ástæða sé til að taka þau sérstaklega út fyrir. Það væri fróðlegt að heyra frekari röksemdir frá hæstv. dómsmrh. fyrir því að taka þarna einn málaflokk út úr á meðan aðrir málaflokkar falli undir þessa reglu um fjárhagslega skilyrðið. Spurningin er hvort ekki hefði verið eðlilegra að hafa þetta ákvæði eins og varðandi önnur lög. Ég velti því a.m.k. fyrir mér. Með því að lesa greinargerðina sannfærist ég ekki um nauðsyn þess að taka þennan málaflokk sérstaklega út úr og væri fróðlegt að fá að heyra frekari rök fyrir því.

Að öðru leyti munum við skoða þetta mál með opnum huga í allshn.