Veðurþjónusta

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 12:34:30 (6520)

2004-04-16 12:34:30# 130. lþ. 98.18 fundur 784. mál: #A veðurþjónusta# frv., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 130. lþ.

[12:34]

Mörður Árnason:

Forseti. Við fyrstu sýn er frv. sem hér er lagt fram mikilvægt og gagnlegt. Það færir Veðurstofuna og veðurþjónustuna fram til þeirra tíma sem við nú lifum. Það er gert á þann hátt að telja verður til hróss fyrir nefndina sem að því stóð og hæstv. ráðherra sem það flytur.

Meginbreytingin eða kannski meginskýringin sem frv. veitir okkur er að Veðurstofan, opinber stofnun á vegum almannavaldsins, rekur allt grunnkerfið. Hún ber ábyrgð á að viðhalda kerfinu og vakta þennan mikilvæga þátt í náttúrufarinu og sér til frambúðar um að varðveita gögn um það sem við á Íslandi vitum að er ákaflega mikilvægt. Þeir þættir í starfi Veðurstofunnar sem á síðustu árum hafa valdið nokkrum óróa og vandræðum, samkeppnisþættirnir, verða aðskildir, settir undir sérstaka reikninga og hafðir sér. Hugsanlegt er að að lokum eigi þetta eftir að hverfa frá þessari stofnun. Þeir tímar koma og þar með þau ráð sem til þarf.

Ég vil lýsa almennum stuðningi við þetta frv. Það er mjög í samræmi við þá hugsun sem við samfylkingarmenn höfum haft um verkaskiptingu á milli hins opinbera og þeirra sem keppa á samkeppnismarkaði. Sitthvað í þessu frv. þarf að skoða. Ég ætla ekki að rekja það í þessari umræðu, það förum við í gegnum í umhvn. Að meginefni þá tel ég þetta frv. hið þarfasta.