Eiturefni og hættuleg efni

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 13:14:07 (6533)

2004-04-16 13:14:07# 130. lþ. 98.20 fundur 877. mál: #A eiturefni og hættuleg efni# (sæfiefni, EES-reglur) frv. 96/2004, umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 130. lþ.

[13:14]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um eiturefni og hættuleg efni, nr. 52/1988.

Frumvarp þetta er lagt fram til að laga ákvæði laga um eiturefni og hættuleg efni að ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 98/8/EB frá 16. febrúar 1998 um markaðssetningu sæfiefna, sem tók gildi á Evrópska efnahagssvæðinu 1. mars 2004.

Sæfiefni eru samkvæmt frv. skilgreind sem efni eða efnablöndur sem ætlað er að eyða hættulegum lífverum, bægja þeim frá eða gera þær skaðlausar. Sæfiefni eru t.d. viðarvörn, nagdýraeitur, skordýraeitur, gróðurhindrandi efni, sótthreinsandi efni og rotvarnarefni.

Hluti sæfiefna fellur ekki undir gildissvið núgildandi laga um eiturefni og hættuleg efni. Þetta eru efni sem hvorki eru á lista yfir eiturefni eða hættuleg efni, sbr. 1. og 2. mgr. 1. gr. laganna. Dæmi um slík sæfiefni eru ýmis rotvarnarefni og sótthreinsandi efni ásamt fæli- og löðunarefnum. Í frv. þessu er því lagt til að gildissvið laganna verði rýmkað þannig að þau nái yfir þessi efni. Gert er ráð fyrir að öll sæfiefni þurfi að skrá hér á landi og leyfi Umhverfisstofnunar þurfi til markaðssetningar þeirra en í dag er einungis hluti þeirra skráningarskyldur. Í aðalatriðum er unnt að byggja skráningu sæfiefna og leyfi til markaðssetningar á ákvæðum 16. gr. núgildandi laga en gera þarf lítils háttar breytingar á orðalagi þeirrar greinar þannig að hún nái til allra sæfiefna. Breytingin felst í því að fleiri efni verða skráningarskyld og verða ekki sett á markað nema með leyfi Umhverfisstofnunar. Markmið slíkrar skráningar og leyfisveitinga er að vernda menn og umhverfi fyrir hugsanlegri hættu sem stafar af notkun sæfiefna.

Í 3. gr. frv. er lagt til að tekin verði upp heimild til að innheimta gjald fyrir vinnu Umhverfisstofnunar við skráningu, leyfisveitingar, áhættumat og aðra tengda stjórnsýslu vegna sæfiefna. Um er að ræða sambærilega heimild og er í lögum í dag varðandi svokölluð varnarefni til notkunar í landbúnaði og garðyrkju.

Umhverfisstofnun vinnur nú að gerð reglugerðar um sæfiefni þar sem sett eru nánari ákvæði um framkvæmd laganna og byggt á ákvæðum tilskipunar nr. 98/8/EB. Gert er ráð fyrir að reglugerð um sæfiefni verði sett í beinu framhaldi af gildistöku laganna.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni frv. Ég legg til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhvn.