Fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 14:26:06 (6543)

2004-04-16 14:26:06# 130. lþ. 100.94 fundur 485#B fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[14:26]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að mér þykir heldur hvimleitt hversu margir á Alþingi, til að mynda hv. fyrirspyrjandi, tala um sveitarfélögin eins og einhver fórnarlömb eða jafnvel eins og þurfalinga sem þurfi að útvega meiri peninga. Ég tel þetta niðurlægjandi tal fyrir sveitarfélögin. Það má ekki gleyma því að sveitarfélögin á Íslandi hafa sjálfstæðan fjárhag og þau hafa sína eigin tekjustofna. Það hefur á undanförnum árum dregið úr sameiginlegum verkefnum ríkis og sveitarfélaga og ég tel að sú þróun sé mjög til bóta enda er stefnt að því að fækka slíkum verkefnum enn frekar, auk þess sem sveitarfélögin hafa tekið að sér ýmsa þjónustu og ýmis verkefni sem stundum er talað um sem nærþjónustu, þ.e. ýmsa þjónustu við íbúana sem er betur komin hjá viðkomandi sveitarfélögum í stað þess að ríkið sjái um fjármögnun og rekstur.

Gott dæmi um þetta, eins og við þekkjum öll, er flutningur grunnskólans sem heppnaðist að mínum dómi mjög vel. Athuganir hafa sýnt að sveitarfélögin fengu ríflega greitt fyrir að taka að sér þá þjónustu, auknar skatttekjur frá ríkissjóði sem nægðu vel fyrir þeim kostnaði sem þessum tilflutningi tilheyrði.

Hv. fyrirspyrjandi spyr hvort tekjustofnar sveitarfélaganna séu fullnægjandi miðað við núverandi verkefni þeirra. Hvenær skyldu tekjustofnar ríkisins og sveitarfélaganna vera fullnægjandi? Ætli það sé ekki alltaf hægt að finna verkefni til að eyða meiri tekjum í?

Auðvitað er það pólitísk spurning sem hvert sveitarfélag og sveitarstjórnarmenn, auðvitað kjósendur líka, verða að taka afstöðu til. Ef við lítum á þróun tekna sveitarfélaga og ríkissjóðs á sambærilegu þjóðhagsuppgjöri frá árinu 1998 til ársins í ár er árið 1998 valið sérstaklega vegna þess að þá var búið að flytja grunnskóla til sveitarfélaga með útgjöldum og tekjum. Á þessu tímabili hafa tekjur sveitarfélaganna hækkað úr rúmlega 54 milljörðum í rúmlega 99, þ.e. um 82,5%. Á sama tíma hafa tekjur ríkissjóðs aukist úr 170,5 milljörðum í tæplega 271 milljarð, þ.e. um 59%. Ef tekjur ríkissjóðs hefðu vaxið með sama hraða og tekjur sveitarfélaganna á þessu tímabili væru þær 40 milljörðum meiri en nú er.

Hvað telur fyrirspyrjandi eðlilegt að tekjur sveitarfélaganna vaxi mikið? Fjárheimildir jöfnunarsjóðs vegna álagningar á skatt og útsvör námu rúmlega 4 þús. millj. á árinu 2000 en eru tæplega 6,5 milljarðar í fjárlögum yfirstandandi árs.

Ég vil vekja athygli á þessum staðreyndum, herra forseti, vegna þess að tekjur sveitarfélaganna hafa ekki staðið í stað. Þær hafa aukist stórlega á undanförnum árum, m.a. vegna þess að ríkissjóður og sveitarfélögin hafa verið að skipta með sér tekjustofnum og verkefnum en líka vegna vegna að ríkissjóður hefur án nokkurrar skyldu þar að lútandi reitt fram sérstaka fjármuni, t.d. í jöfnunarsjóð. Það liggur auðvitað líka fyrir að hærra fasteignamat í landinu almennt hefur skilað sveitarfélögunum miklum viðbótartekjum. Hærri tekjur almennings af landinu hafa verið að skila sveitarfélögunum hærra útsvari, eins og við þekkjum vel. Það er enginn afsláttur veittur af því. Sveitarfélögin fá sitt útsvar af öllum tekjuauka sem verður til í landinu, enda sér ríkið til þess að greitt er útsvar af öllum tekjum og að sveitarfélögin taki ekki á sig tekjutap vegna persónuafsláttar. Þannig er það, herra forseti.

Ég hafna því algjörlega að ríkisvaldið hafi brotið á sveitarfélögunum varðandi húsaleigubætur eða veiðar á ref og minki. (JBjarn: Ég sagði það ekki.) Ég hafna því hvort sem þingmaðurinn sagði það eða ekki. Sú ásökun hefur verið borin fram af ýmsum öðrum og ég vil nota tækifærið og hafna því algjörlega.

Ég vil segja, virðulegi forseti, að það er í gangi heilmikil vinna í góðu samstarfi milli ríkis og sveitarfélaga um verkaskiptingu, um stækkun sveitarfélaga og sameiningu þeirra og um tekjustofnamálin. Það er alveg ástæðulaust að gera því skóna að hér sé eitthvert stórfellt vandamál á ferðinni. Menn eru að vinna þetta saman í góðri samvinnu og þingmaðurinn ætti frekar að taka þátt í því með okkur en að ala á tortryggni sem er orðið sem hann notaði hér. (JBjarn: Það er ekki í boði.) Það er núna í boði.