Fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 14:33:47 (6545)

2004-04-16 14:33:47# 130. lþ. 100.94 fundur 485#B fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[14:33]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga verður að ríkja trúnaður og agi. Sveitarfélögin verða að geta treyst því að við lagasetningu um réttindi og skyldur sveitarfélaga fylgi tekjustofnar, með öðrum orðum ákveðinn heimanmundur sem dugi fyrir þeim verkefnum sem sett eru á sveitarfélögin. Það hefur tekist í mjög mörgum tilfellum en þó mætti betur fara í öðrum. Ég nefni t.d. mjög kostnaðarsaman umhverfisþátt hjá sveitarfélögum, fráveitumálin. Þar er farið eftir mjög ströngum EES-reglum sem reynist mjög mörgum sveitarfélögum afar erfitt. Holræsagjöld standa hvergi nærri undir þessum útgjaldaþætti sveitarfélaganna.

Ég nefni annan málaflokk sem tengist mjög oft litlum sveitarfélögum, þ.e. eyðingu minks og refs. Ég veit þó að unnið er að lausn á þessum málum og menn eru að ná sátt um þau en eins og þetta er í augnablikinu greiða sveitarfélögin um það bil 60% af þessum kostnaði á móti þeim 40% sem lenda á ríkinu. Þetta á líka við um húsaleigubætur. Þar er ákveðin óeining á milli sveitarfélaga og ríkisvaldsins. Þar er skiptingin 40/60, þ.e. 60% koma frá jöfnunarsjóði en 40% frá ríkinu, þannig að það er nauðsynlegt að skoða þessi mál. Ég veit að í gangi eru nefndir til að skoða þau, þ.e. tekjujöfnunarnefnd og nefnd um eflingu sveitarstjórnarstigsins. Mjög margt gott hefur gerst í þessum efnum en það er alveg nauðsynlegt að agi ríki og trúnaður á milli þessara aðila. Það hefur verið gott samstarf ríkisstjórnarinnar við Samband íslenskra sveitarfélaga og ég veit að menn eru að skoða þessi mál af fullum heilindum og munu ná sáttum að lokum.