Fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 14:48:52 (6552)

2004-04-16 14:48:52# 130. lþ. 100.94 fundur 485#B fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), GÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[14:48]

Guðlaugur Þór Þórðarson:

Virðulegi forseti. Þessi umræða er ágæt og sjálfsagt að taka hana. Formaður Vinstri grænna fór mikinn og snupraði ráðherra fyrir að vera ekki í salnum en ég sé hvergi formann Vinstri grænna hér, hv. þm. Steingrím J. Sigfússon. Það þykir mér nokkuð athyglisvert. Ég veit ekki hvort það teljist að vera sjálfum sér samkvæmur á vinstri væng íslenskra stjórnmála en það telst ekki að vera sjálfum sér samkvæmur annars staðar.

Ég held að það skipti máli að menn tali um hlutina eins og þeir eru og það liggur fyrir að fjárhagsleg samskipti milli ríkis og sveitarfélaga hafa verið í góðum farvegi. Það sem er ekki áberandi og menn hafa ekki talað um er að 2.500 millj. kr. hefur verið varið umfram heimildir og lögboðnar skyldur ríkisvaldsins frá árinu 1999 frá ríkinu til sveitarfélaganna.

Ef við tölum um yfirfærslu grunnskólanna þá liggja fyrir skýrslur, hv. þm. Sigurjón Þórðarson og hv. þingmenn Samf., t.d. frá KPMG (Gripið fram í.) þar sem þetta er tekið út og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson skyldi kynna sér slíka skýrslu og tala síðan um málið.

Af því að hér er rætt um borgarmálin vil ég nota tækifærið og hvetja aðila í þessum þingsal, jafnt vinstri menn sem hægri menn, til að skoða hvað hefur gerst í valdatíma vinstri manna á síðustu tíu árum í Reykjavíkurborg, öflugasta sveitarfélaginu. Skuldirnar hafa aukist um 100 þús. kr. á íbúa og í 1 millj. kr. um næstu áramót ef fram fer sem horfir, þrátt fyrir mesta góðæri íslensku þjóðarinnar. (Gripið fram í.) Ef menn ætla að vera sjálfum sér samkvæmir og hafa áhyggjur af fjármálum sveitarfélaga ættu þeir að ganga og tala við sitt fólk í Ráðhúsi Reykjavíkur og kenna þeim ábyrgð í fjármálum. Það er skref númer eitt, virðulegi forseti.

(Forseti (JóhS): Ég vil minna hv. þm. á að beina orðum sínum að forseta og fundinum en ekki einstaka þingmönnum.)