Fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 14:51:04 (6553)

2004-04-16 14:51:04# 130. lþ. 100.94 fundur 485#B fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), Flm. JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[14:51]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Heldur voru svör hæstv. fjmrh. rýr og innlegg hans í umræðuna fátæklegt en þó var þar eitt. Hann taldi að sveitarfélögin hefðu næga tekjustofna til þess að standa undir þeim verkefnum sem þau hefðu. Ég held að með yfirlýsingu í þessa veru sé hann í raun að setja það starf sem er í gangi um eflingu sveitarstjórnarstigsins í uppnám því Sambands ísl. sveitarfélaga hefur lagt fram kröfu í tekjustofnanefndinni að það verði fyrst tekið á vanda dagsins í dag og hann jafnaður áður en farið er að tala um fleiri verkefni.

Ég vil líka minna hæstv. ráðherra og reyndar hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson á að formaður Sambands ísl. sveitarfélaga, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, sem einnig er oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavíkurborg (Gripið fram í: Flokksbróðir hans.) og flokksbróðir hans, hefur allt aðra skoðun á þessu máli en borgarfulltrúinn. (GÞÞ: Það er ekki rétt.) Hann segir í viðtali við Morgunblaðið 8. apríl 2004 einmitt í tilefni þess að fjmrh. hefur í gegnum skattalagabreytingar átt hluta að því að sveitarfélögin tapa núna á milli 800 og 1.000 millj. kr. á ári vegna færslu úr einkarekstri yfir í einkahlutafélög. Hann segir um nefnd ríkis og sveitarfélaga, sem fer yfir tekjustofna sveitarfélaga, með leyfi forseta:

,,Vonast er til að nefndin skili tillögum í haust. Burt séð frá því hvort ný verkefni verði flutt til sveitarfélaganna er það algjörlega ljóst í mínum huga að það verður að styrkja tekjustofna sveitarfélaga. Það væri hreint ábyrgðarleysi af hálfu löggjafarvaldsins ef það yrði ekki gert með einum eða öðrum hætti,`` segir oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavíkurborg og formaður Sambands ísl. sveitarfélaga.

Virðulegi forseti. Það væri fullkominn blekkingaleikur ef haldið er áfram að blekkja sveitarfélögin með eflingu sveitarstjórnarstigsins ef sá tekjuójöfnuður sem þau búa við er ekki jafnaður nú þegar.