Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 16:02:45 (6570)

2004-04-16 16:02:45# 130. lþ. 100.3 fundur 875. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (landanir erlendis, undirmálsfiskur) frv. 65/2004, sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[16:02]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 57 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum.

Hér er lagt til að tvær breytingar verði gerðar á lögunum. Er annars vegar lagt til að rýmkuð verði heimild til handa ráðherra til að heimila landanir erlendis á fiski sem veiðist bæði innan og utan lögsögu Íslands og hins vegar að breytt verði lagaákvæði sem lýtur að frágangi á undirmálsfiski um borð í veiðiskipum.

Samkvæmt 5. gr. laganna er íslenskum fiskiskipum skylt að landa hér á landi öllum afla úr stofnum sem veiðast að hluta eða öllu leyti innan efnahagslögsögu Íslands. Þær undantekningar eru gerðar frá þessari meginreglu að ráðherra er annars vegar heimilt að leyfa löndun á ísfiski í erlendum höfnum enda sé hann seldur á opinberum fiskmörkuðum og hins vegar löndun á bræðslufiski í fiskimjölsverksmiðjur enda sé tryggt að eftirlit með löndun og vigtun afla sé fullnægjandi.

Hér er lagt til að heimildin í 3. málsl. verði rýmkuð þannig að hún sé ekki bundin við löndun til bræðslu en taki til veiða á fisktegundum sem veiðast innan og utan lögsögunnar. Með slíkri breytingu gæti ráðherra heimilað löndun t.d. á loðnu, kolmunna, norsk-íslenskri síld og úthafskarfa erlendis, þætti tryggt að eftirlit með löndun afla og vigtun væri fullnægjandi. Slík heimild gæti þegar veiðar eru stundaðar langt frá Íslandi dregið úr kostnaði við siglingar skipa og jafnframt aukið verðmæti aflans.

Í 4. málsl. 1. mgr. 9. gr. segir að ef ráðherra ákveði á grundvelli heimildar í lögum um stjórn fiskveiða að fiskur undir tiltekinni stærð teljist ekki nema að hluta til aflamarks skuli undirmálsfiski haldið aðgreindum frá öðrum afla um borð og hann veginn sérstaklega.

Hér er lagt til að ákvæðinu verði breytt á þann veg að heimilað verði einnig að miða við þyngd en ekki eingöngu stærð. Þá er lagt til að ekki verði gerð skilyrðislaus krafa um að fiskinum verði haldið aðskildum frá öðrum fiski um borð heldur skuli ráðherra setja reglur um hvernig eftirliti með þessu atriði skuli varið. Má hér sem dæmi nefna að komið getur til greina að flokka undirmálsfisk frá við löndun afla eða vigtun hans. Má benda á í þessu sambandi tegundir sem ekki eru blóðgaðar eða gert er að um borð í veiðiskipi.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni 1. umr. verði frv. vísað til hv. sjútvn.