Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 16:27:37 (6574)

2004-04-16 16:27:37# 130. lþ. 100.3 fundur 875. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (landanir erlendis, undirmálsfiskur) frv. 65/2004, sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[16:27]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Hæstv. forseti. Það er út af fyrir sig rétt sem komið hefur fram hjá hv. þingmönnum, að þetta frumvarp er ekki mikið um sig. Hins vegar skipta þau atriði sem hér er um að ræða verulega miklu máli. Fyrst og fremst er verið að bregðast við breytingum á því umhverfi sem fiskiskipin vinna í, breytingu á flotanum og breyttum viðfangsefnum um borð í fiskiskipunum. Það eru allt saman, að ég tel, jákvæðar breytingar.

Þegar um er að ræða spurninguna um löndun erlendis þá er það nú fyrst og fremst síldin eða norsk-íslenska síldin sem höfð er í huga. Hana er verið að veiða á hinum ýmsu hafsvæðum, aðallega í norðaustanverðu Atlantshafinu, fjarri heimahöfnum. Skipafloti okkar hefur breyst þannig að við erum ekki í eins ríkum mæli og áður að veiða þennan stofn til bræðslu. Við erum að veiða hann meira til vinnslu um borð í skipum sem frysta afurðina og geta þannig landað henni í því formi í erlendum höfnum. En það skilyrði auðvitað fylgir þessu að þar sé eftirlitið ekki lakara en það gerist hjá okkur, að hafnirnar séu teknar út af Fiskistofu og að þar séu aðilar sem séu ábyrgir fyrir því að skila þeim upplýsingum sem Fiskistofa gerir kröfu um á því formi sem hún gerir kröfu um þannig að hún geti haft eftirlit með því að þar sé farið eftir þeim reglum.

Varðandi undirmálsmælingarnar hins vegar má segja að karfinn er þar mönnum efst í huga eins og hv. þingmenn hafa nefnt hér. Þar er um annars konar vinnslulínur að ræða en til dæmis við þorskveiðar. Því er óhagræði af því í flotanum að stærðarflokka karfann úti á sjó.

[16:30]

Þar sem löggjöfin er enn ekki tilbúin þá höfum við ekki sett reglur um þetta enn þá en við það er miðað, eins og kemur fram í textanum, að undirmálið sé flokkað frá við löndun eða vigtun. Meginsjónarmiðið sem fram kemur í þessu frv. er að laga reglurnar að starfsháttum í atvinnugreininni. Kannski þarf að skoða nákvæmlega hvaða tímamörk eru sett í þessu sambandi og aðlaga þannig að það komi sem hagkvæmast út fyrir atvinnugreinina. Jafnframt þarf að hafa með því eðlilegt eftirlit og gæta þess að öllum reglum sé fylgt. Fiskistofa treystir sér til að setja og fylgja eftir reglum sem byggja á þeim lagagreinum sem hér um ræðir.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson ræddi sérstaklega um það hvort gert væri ráð fyrir því að þessar afurðir yrðu seldar á uppboði erlendis. Þær afurðir sem ég hef nefnt hér eru ekki þess eðlis að þær séu seldar á uppboði þótt þær séu beinlínis seldar á heimsmarkaði. Eftirlitið verður auðvitað að taka mið af því að um slíka löndun sé að ræða en ekki um löndun á uppboðsmarkað.

Hvað varðar meðafla og upplýsingar um meðafla þá þurfa að koma sams konar upplýsingar um hann og gert er ráð fyrir í þeim reglum sem gilda hér innan lands. Um sams konar meðferð væri að ræða svo fremi sem ekki væri kveðið á um það á annan hátt í þeim samningum sem við gerum við erlenda aðila eða þá að hinir erlendu aðilar geri kröfur um að í þeirra heimahöfn sé tekið á þessu á annan hátt en hér hjá okkur. Af því að hv. þm. nefndi sérstaklega meðafla hjá kolmunnaskipum austur af landinu og ufsaveiðar þá var það svo um ufsann sem blandaðist í kolmunnann að hann var aðallega í færeyskri lögsögu. Við reynum að fylgjast mjög vel með meðafla í þessum veiðum og lokum svæðum ef um er að ræða umtalsvert magn. Reynslan hefur sýnt okkur að það virðist duga til að forðast að meðaflinn sé í verulegum mæli.

Hins vegar er það einfaldlega eðli þessara veiða að erfitt getur reynst að forðast það að ekki komi með einn og einn fiskur. Jafnvel getur verið erfitt, við löndun, að halda þeim aðskildum. Þessar veiðar eru allt annars konar en þegar bolfiskur er veiddur og ekki einfalt að leysa það vandamál sem hv. þm. nefndi. Þó hafa komið upp hugmyndir um það en enn sem komið er þá höfum við metið það svo að aðrar aðferðir dugi til að koma í veg fyrir að af veiðunum skapist veruleg vandamál.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson nefndi einnig dagabátana og, hvernig sem hann orðaði það, taldi að hæstv. ráðherra stæði fyrir lögbrotum hvað varðar stöðu þeirra. (Gripið fram í.) Þetta er vinsælt umræðuefni í þingsölum þessa dagana, meint lögbrot ráðherra. En ég tel rétt að undirstrika að staða dagabátanna og þróun þeirra hefur í einu og öllu farið eftir þeim lögum sem samþykkt hafa verið á Alþingi. Ég kannast ekki við að brugðið hafi verið út af þeim.

Hv. þm. nefndi einnig til sögunnar niðurstöður úr togara\-rallinu, sem út af fyrir sig eru jákvæðar og ánægjulegar þótt endanlegar niðurstöður um stofnstærð liggi ekki fyrir. Ef rétt reynist, sem við skulum telja líklegt, að spár frá síðustu ástandsskýrslu reynist réttar, um það hver stofnstærðin er og hver kvótinn gæti verið, þá tel ég líklegt að bætt ástand stofnsins hafi áhrif á veiðar dagabátanna eins og annarra. Þeim mun því ganga betur að afla á þeim dögum sem þeir hafa til ráðstöfunar. Ég held að það sjónarmið, að ástand á miðunum í tengslum við takmarkanir á veiðigetu byggðri á dögum byggist einmitt á því að samhengi eigi að vera þarna á milli. Bætt ástand leiðir því til þess að menn ná að veiða meira þá daga sem þeir hafa.

Hv. þm. Magnús Þ. Hafsteinsson spyr um samninga við Norðmenn. Af þeim eru engar nýjar fréttir. Ég held að það borgi sig ekki að ég sé með neinar vangaveltur um hvað geti gerst í því á næstunni. Hann spyr einnig um vatnsprósentuna. Ef ég man rétt þá var vatnsprósentan í síldinni á síðustu vertíð sú sama og í nágrannalöndunum. Það er eðlilegt, þegar veitt er úr sameiginlegum stofni, að samræmdar reglur gildi um það alls staðar þar sem landað er þannig að sama mæling fáist á því hvað búið er að veiða úr stofninum alls staðar. Mig minnir að gert hafi verið ráð fyrir því að þessar reglur mundu breytast á þessu ári frá því sem gilti á síðasta ári. Ég segi þetta reyndar eftir minni og kannski ekki alveg rétt að fara lengra út í þá sálma og að óathuguðu máli.

Ég held að ég hafi farið yfir öll þau atriði sem nefnd hafa verið fyrir utan það sem hv. þm. Jón Gunnarsson hafði orð á, að málin væru að hrúgast upp á síðustu dögum. Ég held varla að þetta frv., upp á þrjár greinar að gildistökugreininni meðtalinni, geti talist hrúgald. Miðað við þá umræðu sem hér hefur farið fram tel ég ljóst að hafi ég verið að lauma einhverju í gegn með þessu frumvarpi þá hafi mér örugglega ekki tekist það.