Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 16:38:19 (6575)

2004-04-16 16:38:19# 130. lþ. 100.3 fundur 875. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (landanir erlendis, undirmálsfiskur) frv. 65/2004, MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[16:38]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hegg eftir einu enn í frv. Hér stendur að með þeirri breytingu sem lagt er til að gera í frv. þá geti hæstv. ráðherra heimilað löndun, t.d. á loðnu, kolmunna, norsk-íslenskri síld og úthafskarfa, erlendis. Nú er mér kunnugt um að íslensk skip lönduðu töluvert miklu af síld í erlendum höfnum í fyrra, þ.e. ekki bræðslusíld heldur frystum síldarflökum, m.a. í Noregi. Voru þær landanir á þeim tíma lögbrot? Voru þær lögbrot fyrst að setja þarf lög um það núna? Fróðlegt væri að fá að heyra svar við því.

Svo vil ég gera dálitla athugasemd. Mér fannst ráðherra ekki svara spurningu minni um hvers vegna menn eru líka farnir að draga inn þyngd hvað varðar undirmálsfisk en ekki eingöngu stærð, þ.e. lengd. Ég mundi gjarnan vilja fá svör við því.

Að lokum, varðandi þessar meintu jákvæðu niðurstöður úr togararallinu, þá finnast mér það ekki jákvæðar niðurstöður þegar þorskurinn hefur aldrei mælst jafnhoraður og núna frá því að mælingar á holdafari þorsks hófust árið 1993. Það eru ekki jákvæðar fréttir. Það eru mjög alvarlegar fréttir. Það er líka mjög alvarlegt hversu illa virðist rætast úr seiðaárgöngum. Það gæti hugsanlega bent til þess að þorskinn skorti æti og hann sé að éta undan sér í verulegum mæli. Þetta er mikið áhyggjuefni.

Það er líka mikið áhyggjuefni að í togararallinu skuli ekki hafa fundist loðna í þorskmögum á svæðinu frá Vestfjörðum allt suður og austur að Vík. Það er líka mikið áhyggjuefni. Ég tala ekki um núna, þegar sjór er hlýrri en verið hefur í mörg ár og vistkerfið þarf mikla orku til að geta rúllað áfram. Þorskurinn þarf mikla næringu. Við héldum að við værum með unga árganga sem væru að alast upp en ég segi aftur og enn að þeir virðast hreinlega ekki komnir í veiðina. Það eru mikil vonbrigði og mikið áhyggjuefni.