Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 16:40:31 (6576)

2004-04-16 16:40:31# 130. lþ. 100.3 fundur 875. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (landanir erlendis, undirmálsfiskur) frv. 65/2004, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[16:40]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson sér bara ekki til sólar þegar metin er stærð og ástand þorskstofnsins. Þótt hann vildi að einhverjir hlutir væru öðruvísi þá verða menn samt að sjá þá hluti sem jákvæðir eru. Svo virðist, ef við lítum fram hjá ofmatsmælingunni sem var 1999, sem þetta sé stærsta stofnmæling samkvæmt vísitölunni frá því 1989. Það hljóta einhvers staðar að teljast fréttir. Mér virðist að einhverjir íslensku fjölmiðlanna hafi talið það fréttir að undanförnu.

Varðandi það að taka þyngd inn í þessar mælingar er einfaldlega, eins og ég nefndi áðan og taldi mig hafa svarað því með tilvísun til almennrar stefnu þessa frumvarps, verið að taka tillit til þeirra breytinga sem eiga sér stað í vinnslunni og í sjávarútvegi okkar, að það geti verið heppilegra að flokka fiskinn eftir þyngd en eftir stærð. Það er sjálfsagt að hafa möguleika á að bregðast við því ef það er talið hagkvæmara undir einhverjum kringumstæðum.

Varðandi það hvort framin hafi verið lögbrot eða ekki lögbrot við löndun á síld erlendis þá er það ekki mitt að kveða upp úr um það einmitt hér. Til þess þarf maður frekari upplýsingar. Þetta sýnir a.m.k. að það ástand sem ég var að lýsa, að þær breytingar orðið hafa á veiðunum sem kalla á þá lagabreytingu sem hér er um að ræða. Þannig verður hægt að setja reglur um hvernig þessum málum skuli háttað og hægt að hafa eftirlit með löndun skipa erlendis.