Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 16:46:49 (6579)

2004-04-16 16:46:49# 130. lþ. 100.3 fundur 875. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (landanir erlendis, undirmálsfiskur) frv. 65/2004, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[16:46]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. 30 þús. tonna reglan er enn hluti af aflareglunni. Varðandi það sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson nefndi um jafnræðisregluna í stjórnarskránni er varðar fiskveiðistjórnina og sérstaklega dagabátana og að verið sé að auka kvótann í mörgum tegundum, sem er jákvætt og vonandi er hann sammála mér um það, er staðan sú að enn sem komið er er þorskkvótinn ekki kominn í þá stöðu sem hann var í þegar kvótakerfið var sett á eða þegar við byrjuðum að takmarka veiðarnar. Ég held því að það sé fráleitt að halda því fram að kvótakerfið uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar eru til að takmarka atvinnufrelsi manna samkvæmt stjórnarskránni.

Í sambandi við hlut dagabátanna í kerfinu, þegar löggjöfin var sett í janúar 1999 var sú aflareynsla sem bátarnir höfðu lögð til grundvallar og þeim úthlutað hlutdeild af því sem var til ráðstöfunar á hverju ári í veiðunum, sem voru 2 þús. tonn, það var aflareynsla þeirra. Uppsetning kerfisins, aðlögunartími þeirra aðila sem völdu sér þetta kerfi miðaðist að því að veiða 2 þús. tonn. Þannig var upphaf kerfisins. Þannig er samhengi kerfisins við aðrar takmarkanir í fiskveiðistjórnarkerfinu og þannig stenst það fullkomlega þá jafnræðisreglu sem hv. þm. vitnaði til og byggist á aflareynslu skipanna á árinu þar á undan.